..Niðurtalning..

Jæja.. Búin að vera netlaus í tvo daga.. Hrikalegt hvað maður verður háður svona hlutum. En hjá mér eru það síminn og netið þegar ég er að ferðast svona og vinna..

Var stödd á heimaslóðum fótboltakappanna í Man. United sem er ríkramanna úthverfi í Manchester og þekkist betur undir nafninu Cheshire. Lenti þar á fimmtudagsmorguninn en við komum til að styðja og hjálpa til við fjáröflunarkvöld NSPCC sem fór fram í gærkvöldi.

Þetta voru ansi þægilegir tveir dagar.. Gistum á gömlu sveitahóteli og á fimmtudeginum fékk ég að fara í heimsókn í hesthús í nágrenninu og keyra um í hestvagni.  Reyndar allt gert fyrir blaðamenn og ljósmyndara en ég naut þess engu að síður og þið trúið því ekki hvað það var gott að finna hestalykt aftur..!!Brosandi Áttaði mig engan veginn á því hvað ég saknaði hennar mikið.. Svo voru líka tveir svartir labrador hundar þarna sem ég knúsaði út í eitt, ásamt hestunum auðvitað og tókst mér að gera mig grútskítuga fyrir myndatökunaGlottandi Mér gat að sjálfsögðu ekki verið meira sama, en það voru ekki alveg allir á sama máli.. úps, heheBrosandi

Föstudagurinn fór svo í viðtöl og stúss og fjársöfnunin í gærkvöldi tókst með eindæmum vel. Yfir hundrað þúsund pund söfnuðust en við vorum bæði með uppboð og útdráttarlottó. Gestirnir voru bjóðandi þarna hverja milljónina á fætur annarri í skemmtiferðasiglingar og utanlandsferðir. En það er nokkuð ljóst að peningarnir vaxa á trjánum í görðunum hjá þessu fólki, enda hvergi annars staðar í Englandi og þó víða væri leitað, að finna jafnmarga Ferrari og Bentley'a samankomna á einum stað.

En nú er ég farin að telja niður.. 6 dagar þangað til ég fæ að loksins að koma heim í smá stund..  Get bara ekki beðið..! Brosandi Búin að vera ansi löng törn og mikil vinna og ég bara verð að komast aðeins heim að anda og sjá kunnugleg andlit..

Var að hugsa til þess í morgun.. Skondið hvaða aðferð maður notar stundum til að telja niður í eitthvað ákveðið. Eins og t.d ég og bræður mínir þegar við vorum yngri.. Við töldum ekki niður í útlandaferðir eða annað slíkt í dögum heldur í "hversu oft við þyrftum að borða fisk áður en við færum" sem þýðir að við töldum niður mánudagana í tiltekinn atburð.. Glottandi

Núna stóð ég mig hins vegar að því að telja hversu oft ég þyrfti að "krulla á mér hárið" áður en ég kæmist heim og komst að því að það er sirka 4-5 sinnum.. Nokkuð gott!

Annars er ég stödd á Heathrow, terminali 4. Flaug frá Manchester í morgun og er núna að bíða eftir flugi til Shanghai. Veit ekki hversu spennt ég er.. ENN þetta er síðasti áfangastaðurinn þangað til ég fæ að koma heim þannig ég get ekki annað en verið jákvæðBrosandi

Það versta við þetta er tímamismunurinn. Mun ábyggilega eyða tvemur dögum eftir að ég kem heim í að jafna hann út.. Enn það verður bara að hafa það..! Ég vaki þá bara áfram á nóttunni og sef á daginn..

Vona að ég verði með net þar sem ég gisti í Kínalandinu.. Þá læt ég í mér heyra!Glottandi

-UB


..Nylon og Svíþjóð..

Þá er mín bara komin til Svíþjóðar, í fyrsta skipi á ævinni en þetta er einnig í fyrsta skipti sem Miss World heimsækir Svíþjóð. Held að ég sé nú samt ekkert sérstaklega vinsæl hérna sem Íslendingur þar sem úrslitin í handboltanum eru fólkinu fersk í minni en hver ein og einasta manneskja hér hefur nefnt þau við mig, heheGlottandi

Kom hingað óþarflega snemma í morgun, beint í hádegisverð með einhverju fólki og þar á eftir í hvert viðtalið á fætur öðru. Planið í dag, skoðunarferð um borgina (Stokkhólm) með pressunni, kokteilboð hjá Íslenska sendiráðinu hér í Svíþjóð (sem verður indælt), svo dinner og seint í kvöld sé ég um dómgæslu í keppninni um ungfrú Stokkhólm.

Gærdeginum eyddi ég í London en það var svo sannarlega ljúfur dagur!!Brosandi Lagði snemma af stað að hitta hana Emý vinkonu. Villtist reyndar aðeins á leiðinni þar sem ég var að reyna að fóta mig í strætisvagnakerfi Englands í fyrsta skipti en ég hef notað neðanjarðarlestina hingað til.

Hitti loksins Emilíu niðrí Knightbridge þar sem við röltum um og  kíktum í búðir en vorum of uppteknar af því að spjalla til pæla í einu né neinu í kringum okkur. Færðum okkur yfir á Kensington High street þar sem áttuðum okkur á því að líklega væri ráðlegast að setjast einhverstaðar niður svo við gætum spjallað almennilega. Höfum varla hisst á árinu vegna anna á báða kanta svo mikið þurfti að ræða og spegúleraGlottandi

Fengum okkur "late lunch" á Wagamama sem er frekar mikið góður staður og mæli ég hiklaust með honum, alls konar núðluréttir og gúmmulaði. Eftir það héldum við áfram að skoða okkur um og njóta dagsins en hann flaug frá okkur og allt of snemma skildu leiðir. Upphaflega ætlaði ég reyndar út að borða með Emílu og hinum skvísunum í Nylon, en það gekk því miður ekki upp þar sem ég var í gistingu svo langt í burtu og svo þurfti ég að vakna 3.30 í nótt til að fara í flug til Svíþjóðar. En við ætlum bókað allar saman út að borða í London á næstunni og er planið meira að segja að reyna að gera það núna í vikunni þegar ég kem aftur frá Svíþjóð.

        

Nylon var einmitt að gefa út sinn fyrsta "single" í London í dag og ég hvet alla sem vettlingi geta valdið til að fjárfesta í honum og styðja skvísurnar þar sem það fer eftir því hversu vel gengur að selja lagið í þessari viku hvort þær ná frekari árangri á breska markaðnum. Nánari upplýsingar á bloggsíðunni þeirra á minnsirkus/nylon eða nylon.isBrosandi

En ég þarf víst að hlaupa.. Komið að næsta dagskrárlið í dag!

-UB


..Landsmót 2006..

 

 

Takk fyrir helgina allir saman.. Þetta var draumur í dós!!Glottandi

 

Ps. Fleiri myndir í albúmi undir nafninu Landsmót.  (Albúmin reyndar öll í rugli, er að bíða eftir að mbl hjálpi mér að laga þetta. En þið bjargið ykkurBrosandi)


..Tæp heilsa og landsmót..

Jæja.. Það er nú aldeilis að ég skulda ykkur færslu..

Kom sem sagt heim fyrir viku síðan í kærkomið frí sem ég eyddi norður í Skagafirði í faðmi fjölskyldu og vina..

Stoppaði í Reykjavíkinni í aðeins örfáa tíma áður en ég brunaði norður á Vindheimamela með Pabba og litla bróður en við skemmtum okkur stórvel á leiðinni við að hlusta á gamla slagara og hlæja okkur máttlaus af gömlum Ladda disk sem var með í för. Heilsan mín var reyndar ekki upp á marga fiska eftir langt ferðalag heim og mikla vinnu síðustu vikna. Því miður fyrir mig átti hún aðeins eftir að versna, en ég er rétt að skríða upp úr veikindunum í dag.

Fyrir norðan var mér svo tekið opnum örmum en hestavinahópurinn var allur búinn að koma sér vel fyrir á tjaldstæðinu. Þrátt fyrir tæpa heilsu og raddleysi í nokkra daga naut ég þess til hins ítrasta að vera í góðum félagsskap fjölskyldu og vina og horfa á hvern gæðinginn á fætur öðrum sýna hæfileika sína á vellinum. Þetta gat ekki verið betra og ég verð að segja eins og er, landsmót stendur alltaf undir væntingum og er hápunkturinn annað hvert árBrosandi

Dagarnir núna eftir eftir helgi hafa síðan farið í að hitta vini sem ekki voru fyrir norðan enda langt síðan ég var síðast á landinu og ekki er þetta stopp sérstaklega langt þar sem ég fer út strax aftur í fyrramálið. Flýg fyrst til London en þaðan til Ungverjalands þar sem ég verð fram á helgina.

Veit einu sinni ekki almennilega hvenær mín er að vænta aftur heim en maður getur ekki annað en vonað að maður fái að sjá eitthvað meira af sumrinu hérna heima, ef það þá kemur!?!?!Glottandi

En það er komin háttatími á mig.. Hendi inn myndum frá landsmótinu um leið og ég hef meiri tíma..

Þangað til..

Góða drauma..Brosandi

-UB


.. On UK food TV..

Ég vaknaði snemma til að vera mætt kl. 10 í stúdío þar sem ég var gestur í matreiðsluþætti sem er sýndur um allt Bretland..

Þetta var voðalega formlegt allt saman til að byrja með. Fékk mitt eigið búningherbergi og allar græjur og handrit yfir það hvernig þátturinn færi fram. En þegar á hólminn var komið, kom svo í ljós að þetta var eins "ligeglad" og það mögulega gat verið. Þáttastjórnandinn Jenny var YNDISLEG!!   Alveg eiturhress vægt til orða tekið og eiginlega bara léttgeggjuð, sem var frekar fyndið! Hún lék á alls oddi, enn þetta var klukkutíma þáttur í beinni útsendingu. Hún spjallaði um allt milli himins og jarðar og talaði um í þættinum að hún hefði einu sinni verið send til Íslands að gera frétt um það að við (Íslendingar) legðum vegina okkar í kringum álfasteina, sem er að sjálfsögðu dagsatt. Og þetta fannst öðrum starfsmönnum þáttarins og ábyggilega áhorfendum skiljanlega stórfurðulegt!Glottandi

                                 

Ég fékk síðan seinnipart dagsins frían en veðurguðirnir létu á sér standa að koma með sólina.  Vona bara að þið hafið fengið hana heim í staðinn..!

Kvöldið fer í að pakka enn einu sinni og skipuleggja næstu daga. Á flug snemma í fyrramálið til Manchester og þaðan verð ég keyrð áfram til Cheshire þar sem ég verð í tvo daga. Erum að fara að halda góðgerðaruppákomu til styrktar NSPCC sem stendur fyrir, "National Society for the Prevention of Cruelty to Children" Virkilega, virkilega verðugt málefni..

Hef þetta ekki lengra í bili!Brosandi

-UB40

Ps. Var að sýsla aðeins með albúmin mín. Gekk hálf brösulega, en nú eru allavega öll albúmin uppi við, þó þau séu ekki í réttri tímaröð...


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband