1.9.2006 | 17:11
..Ágætis byrjun..
Þá er byrjunin á endanum hafin. Ég komin út í síðustu "ferð" mína sem Ungfrú Heimur og að sjálfsögðu er áfangastaðurinn Pólland.
Eins nálægt Íslandi og Pólland er t.d miðað við Kína, þá tók það mig samt um 12 klst. allt í allt að komast hingað. Með mér í för var fulltrúi Íslands í ár, hún Ásdís Svava, en við flugum saman til Köben og þaðan hingað til Varsjá.
Stemmningin hérna á hótelinu minnir mig óneitanlega á tímann sem ég eyddi í þessari keppni í Kína í fyrra. Fegurðardrottningar í háum hælum sprangandi út um allt, að sjálfsögðu í fylgd "shapperona" sem verða að fylgja þeim hvert fótmál. Farangurskerrur í tugatali en þessar skvísur eru flestar með um 5-6 töskur á mann og sumar hátt í 10!
Ég verð nú bara að segja það, að ég tók allt sem ég mögulega gat og vildi með mér og ég náði bara að fylla tvær töskur.. Önnur er hinsvegar ANSI þung þar sem allavega 7 þykkar laganámsbækur eru með í för!
Stelpurnar/keppendurnir eru allar á sömu hæðinni, tvær og tvær í herbergi en Ásdís lenti með Danmörku alveg eins og ég í fyrra. Ég og fleiri starfsmenn MW fengum svo svítur á öðrum hæðum hótelsins sem þýðir ró og næði og nóg pláss til að breiða úr sér
Þegar ég kom inn á herbergi byrjaði ég á hinni venjulegu rútínu minni en hún felst í því að endurraða hlutum herbergisins eins og ég vil hafa þá. Losa mig við alla óþarfa bæklinga og dót ofan í skúffur, færa símana, fikta í loftræstingunni og koma svo mínum hlutum fyrir í röð og reglu. Myndin af mér og ömmu komin á náttborðið og litli verndarbangsinn minn kominn á rúmgaflinn. Held reyndar að ég sé orðinn örlítill sérvitringur þegar kemur að því að dvelja á hótelum og mundi líklega brosa út í annað ef ég fengi að fylgjast með sjálfri mér koma herbergjunum í það horf sem ég vil hafa þau í..
Annars er ég hálffegin því að vera komin hingað út og verði hér í mánuð. Þurfti aðeins að komast í burtu og eyða tíma með sjálfri mér, en planið er að nota tímann VEL.. Fyrst og fremst læra af mér rass..... þar sem ég kem heim beint í miðannarpróf sem ég er harðákveðin í að standa mig í. En ég hef einnig einsett mér að kynnast fleiri áhugaverðum hlutum þennan mánuðinn sem ég segi ykkur betur frá seinna.
Ég mun vera ofsalega dugleg að blogga og segja ykkur frá, og segi það hér með og skrifa, að þið munuð fá færslu á hverjum degi svo lengi sem ég er í netsambandi og ef ég dett út þá reyni ég að bæta fyrir það með tveimur færslum næsta dag.
Annars skal ég hundur heita!
Farið vel með ykkur..
Kv. Uns