..Dofin..

Hvað sagði ég ykkur.. Ætlaði að vera dugleg..!Glottandi

Fyrsti sólarhringurinn liðinn og allt að komast í rétt horf. Morgunmatur, "lunch" og "dinner" fara fram í stórum sal hérna á hótelinu og allar stelpurnar borða á sama tíma. Ég kem yfirleitt með mínum chapperon þegar þær eru á klára og borða í flýti, þar sem þarna eru yfir hundrað stelpur sem sækjast eftir titlinum sem ég ber og fylgjast því með mér eins og "villidýr bráð sinni", hehe.. Lenti einmitt í því í morgun að ein þeirra kom upp að mér og vildi mynd og þá var ekki aftur snúið, þær komu hver af annarri og ég eyddi öllum morgunmatnum í myndatökur, sem er ekki beint það sem maður kýs svona í morgunsárið. En þetta fylgir víst og þær eru nú margar algjör krúttBrosandi

Eftir morgunmat fékk ég svo tíma til að læra til hádegis og tók ég rispu í kröfuréttinum. Eftir hádegi var sama og enginn frítími í boði en ég þurfti að sinna ýmsum verkefnum á skrifstofunni á meðan stelpurnar voru í myndatökum um alla borg og á æfingum fyrir stóra sýningu sem verður hér annað kvöld. Ásdís okkar búin að standa sig vel og bar af í fjólubláum blómakjól þegar ég kom niður í morgun..

Rétt í þessu var ég koma upp á herbergi klædd í mitt fínasta, en um kvöldmatarleytið var ég viðstödd blaðamannafund fyrir utan leikhúsið þar sem krýningin 30. sept fer fram. Var mikið spurð að því hvort ég yrði ekki sorgmædd að gefa frá mér kórónuna en að sjálfsögðu er bara komin tími til að næsta stúlka taki við og ég haldi áfram með mitt líf. Eftir fundinn var ég svo beðin um að ýta á takka sem gerði það að verkum að hundruðir flugelda fóru í loftið og byggingin var lýst upp í bláum litum kórónunnar en hún verður svo þannig út mánuðinn.

          missworld.com

Þarna sjáið þið bygginguna, kórónuna og keppendurna standa fyrir framan. Alveg fremst stend svo ég í fullum skrúða ásamt borgarstjóra Varsjá.

 

Fyrst ég er að tala um klæðnaðinn þá er gaman að segja frá því að ég er klædd glæsilegri vínrauðri kápu sem er í miklu uppáhaldi hjá öllum hérna. Hún Dorrit var svo yndisleg að lána mér hana fyrr á árinu en hún hefur vakið mikla athygli. Undir borðið (í gríni) köllum við hana reyndar Harry Potter kápuna því hún er svoldið svoleiðis, að sá sem klæðist henni gæti vel búið yfir galdrakraftiGlottandi

Enn þá er fyrsti dagurinn í höfn og allt gengið nokkuð vel fyrir sig.. Ég reyndar pínulítið dofin, en ég vinn vonandi úr því með tímanum enda með öll verkfæri til þess og opin fyrir öllu. Byrjaði að hlusta á hugleiðslu og slökunardisk í gærkvöldi þar sem kennd er rétt öndun, en það er eitthvað sem ég þarf virkilega að kynna mér þar sem álagið nær allt of auðveldlega tökum á mér. Ætla svo í langt  og heitt bað á eftir og kveikja á kertum en þau voru eitt það fyrsta sem ég pakkaði fyrir ferðina enda stór hluti af mínu daglega lífi..

Hugsa heim.. 29 dagar eftir..

 -Uns

 

Ps. Er orðinn Skype vædd, LOKSINS!! Naga mig í handarbökin fyrir að hafa ekki reddað þessu fyrr! Þannig að vinir og vandamenn, látið í ykkur heyraBrosandi


..Ágætis byrjun..

Þá er byrjunin á endanum hafin. Ég komin út í síðustu "ferð" mína sem Ungfrú Heimur og að sjálfsögðu er áfangastaðurinn Pólland.

Eins nálægt Íslandi og Pólland er t.d miðað við  Kína, þá tók það mig samt um 12 klst. allt í allt að komast hingað. Með mér í för var fulltrúi Íslands í ár, hún Ásdís Svava, en við flugum saman til Köben og þaðan hingað til Varsjá.

Stemmningin hérna á hótelinu minnir mig óneitanlega á tímann sem ég eyddi í þessari keppni í Kína í fyrra. Fegurðardrottningar í háum hælum sprangandi út um allt, að sjálfsögðu í fylgd "shapperona" sem verða að fylgja þeim hvert fótmál. Farangurskerrur í tugatali en þessar skvísur eru flestar með um 5-6 töskur á mann og sumar hátt í 10! 

Ég verð nú bara að segja það, að ég tók allt sem ég mögulega gat og vildi með mér og ég náði bara að fylla tvær töskur.. Önnur er hinsvegar ANSI þung þar sem allavega 7 þykkar laganámsbækur eru með í för!

Stelpurnar/keppendurnir eru allar á sömu hæðinni, tvær og tvær í herbergi en Ásdís lenti með Danmörku alveg eins og ég í fyrra. Ég og fleiri starfsmenn MW fengum svo svítur á öðrum hæðum hótelsins sem þýðir ró og næði og nóg pláss til að breiða úr sérBrosandi

Þegar ég kom inn á herbergi byrjaði ég á hinni venjulegu rútínu minni en hún felst í því að endurraða hlutum herbergisins eins og ég vil hafa þá. Losa mig við alla óþarfa bæklinga og dót ofan í skúffur, færa símana, fikta í loftræstingunni og koma svo mínum hlutum fyrir í röð og reglu.  Myndin af mér og ömmu komin á náttborðið  og litli verndarbangsinn minn kominn á rúmgaflinn. Held reyndar að ég sé orðinn örlítill sérvitringur þegar kemur að því að dvelja á hótelum og mundi líklega brosa út í annað ef ég fengi að fylgjast með sjálfri mér koma herbergjunum í það horf sem ég vil hafa þau í.. Glottandi

Annars er ég hálffegin því að vera komin hingað út og verði hér í mánuð. Þurfti aðeins að komast í burtu og eyða tíma með sjálfri mér, en planið er að nota tímann VEL.. Fyrst og fremst læra af mér rass..... þar sem ég kem heim beint í miðannarpróf sem ég er harðákveðin í að standa mig í. En ég hef einnig einsett mér að kynnast fleiri áhugaverðum hlutum þennan mánuðinn sem ég segi ykkur betur frá seinna.

Ég mun vera ofsalega dugleg að blogga og segja ykkur frá, og segi það hér með og skrifa, að þið munuð fá færslu á hverjum degi svo lengi sem ég er í netsambandi og ef ég dett út þá reyni ég að bæta fyrir það með tveimur færslum næsta dag.

Annars skal ég hundur heita!Glottandi

Farið vel með ykkur..

Kv. Uns


..Síðustu vikur..

Nú er skólinn byrjaður og kominn á skrið og tilfinningin bara góð að vera sest aftur á skólabekk. Þessi önn verður reyndar tiltölulega óhefðbundin hjá mér þar sem ég fer út í næstu viku og kem ekki aftur heim fyrr en 1 okt..! Verð því að taka allar þungu lögfræðibækurnar mínar með mér og vera dugleg að læra á meðan ég túra um Pólland með 110 fegurðardrollum..Glottandi

Síðustu þrjár vikur hafa heldur betur verið afdrifaríkar. Til að byrja með fórum við Straumfjörð í sitthvora áttina en það var bara eitthvað sem gekk ekki upp og þannig er það víst stundum. Einnig hefur gífurlega mikið verið spáð og spegúlerað enda styttist í það að ég klári Miss World árið mitt og sé laus undan þeim samning. Margt skemmtilegt í bígerð sem ég hlakka til að hella mér útí, en það bíða eftir mér nokkur góð tilboð í formi auglýsingasamninga. Get lítið sagt eins og er, en eitt er víst að ekkert lát verður á ferðalögum hjá mér næstu mánuðina eða árið, en leiðin mun liggja mikið vestur um haf til Bandaríkjanna sem og Evrópu og Indlands sem er einmitt land sem mig hefur lengi langað til að heimsækjaBrosandi

Þessa vikuna hef ég svo heldur betur tekið til hendinni. Ásamt því að hafa byrjað í skólanum þá er ég búin að vera í málningargallanum hér heima, en þar sem Steinar bróðir tók upp á því að yfirgefa okkur hérna í Árbænum þá hef ég ákveðið að flytja allt mitt hafurtask úr bílskúrnum inn í hús, í mjög kósý herbergi upp á lofti. (Eða það er allvega að verða mjög kósý eftir smá "makeover"..Glottandi)

En lögfræðibækurnar bíða víst ekki endlaust eftir mér, best að fara að sinna þeim greyjunum..

Þangað til næst..

-Uns

 


..Danskir dagar..

Helginni eyddi ég í þeim yndislega bæ á Snæfellsnesinu, Stykkishólmi.. Þar stóð hátt hátíðin danskir dagar með öllu tilheyrandi svo sem bryggjusöng, útitónleikum og flugeldasýningu í boði trillukallannaBrosandi

Við eigum gamalt fallegt hús þarna í bænum og mams gerði sér lítið fyrir og hélt partý á pallinum okkar þar sem við sátum öll saman við logandi eld og spjölluðum og sungum við gítarspil fram eftir nóttu.

Þarna áttum við fjölskyldan virkilega ljúfar stundir í skemmtilegum hópi fólks sem er ómetanlegt þegar lífið er í lægð og maður minnist þess að mikilvægast af öllu er fjölskyldan, vinirnir og fólkið sem manni þykir vænt um.

Skellti inn nokkrum myndum sem fanga stemmninguna ansi velBrosandi

Og að lokum vil ég setja niður þessar línur með von um að sem flestir tileinki sér mátt þeirra..

Guð gefi mér æðruleysi

 til að sætta mig við það

 sem ég get ekki breytt,

kjark til að breyta því sem

 ég get breytt

og vit til að greina þar á milli.


..Borgin sem aldrei sefur..

Já New York stóð alveg fyrir sínu.. Fyrsta skipti sem ég kem þangað og ég varð svo sannarlega ekki fyrir vonbrigðum..!Brosandi

Vorum sótt á flugvöllinn með stæl, en eftir okkur beið glæsivagn sem er víst ódýrara að leigja heldur en að taka tvo leigubíla. Hótelið var á besta stað, höfðum útsýni niðrá Times Square  og vorum fimm mínútum frá Central Park.

 Times Square

Sýnist einhverjir gamlir löggutaktar hafa komið upp í mér, hvíli höndina á "beltinu" hehe..  ;)

 

Dagarnir voru svo  teknir snemma, kannski ekki alveg af fúsum og frjálsum vilja en tímamismunurinn spilaði þar stóra rulluGlottandi Þegar við höfðum tíma á milli erinda tókum við frasanum "shop till you drop"  frekar bókstaflega þar sem við þræddum göturnar þangað til við virkilega gátum ekki meira og næstum öll kvöldin komnar í rúmið kl. 10.

Aðalmarkmiðið með þessu búðarrápi var þó að finna kjól fyrir lokakvöldið í Póllandi, til að klæðast þegar ég krýni næstu stúlku sem hlýtur titilinn Miss World. Því markmiði var náð og ég í skýjunum með kjólinn. Mun meira að segja líklega getað notað hann aftur í framtíðinni við eins og eitt mjög sérstakt tilefniGlottandi

Í ferðinni heimsótti ég m.a Empire State bygginguna, borðaði morgunmat við Rockfeller Center og kíkti niðrá Ground Zero. En planið er að fara fljótlega aftur og gera þá þessa helstu túristahluti en þrír dagar eru alltof stuttur tími til að meðtaka þessa borg!

Annars er gott að vera komin heim. Sé fram á ágætis frí frá ferðalögum þangað til ég flýg næst til Póllands í lok mánaðarins. Styttist í að skólinn byrji en á mánudagsmorguninn verður maður mættur með tölvuna sína niðrí HR og byrjaður að stúdera lögfræðina á ný.

Þrátt fyrir flugþreytu í gær skellti ég mér í Rockstar hitting með stelpunum.. Verð nú að segja fyrir mitt leyti að mér finnst þessi þáttaröð ansi langdregin og á Magni alla mína samúð að þurfa að hanga þarna fjarri lífi sínu hér heima.

Hversu fyndið væri samt ef hann slægi þessu bara upp í kæruleysi og tæki eins og eitt "Á móti sól" lag til að hrista aðeins upp í þessu liði.. Mundi allavega fá slatta af rokkprikum í rassvasann..!Glottandi

-UB

*Nýjar myndir


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband