..Kuldi og brúnn matur..

Hello og fyrsta ferðin.

Jæja.. Ég skulda ykkur sko aldeilis færslu ef ekki færslur þar sem ég hef því miður ekkert getað skrifað síðustu daga! Veit að það eru nokkrir þarna heima ansi ósáttir með þessa frammistöðu mina í skriftunum, en ég kippi því í liðinn ;)

Úff það er svo margt sem ég á eftir að segja ykkur.. Veit varla hvar ég á að byrja! En það hefur reynst vel að byrja á byrjuninni hingað til þannig að sú verður raunin..

Eftir að hafa eytt jólunum og áramótunum í faðmi fjölskyldu og vina bankaði raunveruleikinn fljótlega upp á kallaði mig til starfa í nýju vinnunni minni.

Fyrsta verkefnið mitt var myndataka heima á Íslandi fyrir tímaritið Hello en hún tók eina helgi og til íslands komu ljósmyndari og fylgdarfólk til að vinna að verkefninu. Þetta var engin smá taka og að sjálfsögðu sú stærsta sem ég hef tekið þátt í, enda alþjóðlegt blað sem kemur út í mörgum mörgum löndum. Við áttum LANGA vinnudaga og ég held að sá lengsti hafi verið 17 tímar og þá var ég líka alveg gjörsamlega búin á því.
Við tókum myndir bæði úti og inni. Útimyndirnar voru teknar hjá Gullfoss og Geysi og á þingvöllum en innimyndirnar á hótel Nordica.
Þetta var virkilega skemmtilegt en það sem stendur upp úr var að fá að vinna með og kynnast Dorrit. Hún er algjör gullmoli og svona manneskju hittir maður ekki oft á lífsleiðinni.
Sama dag og við kláruðum tökuna þurfti ég að fljúga til London. Og fékk sama og engan fyrirvara eða tíma til að pakka eða undirbúa mig og var því ábyggilega skrautlegt að fylgjast með mér í stresskasti heima að fleygja hlutum ofan í tösku og pirra mig yfir hinu og þessu.. ;)

Ég var í London í nokkra daga, fór á fundi og hitti fólk sem ég er að fara að vinna með næsta árið og í nokkrar myndatökur, viðtöl og spjallþætti í sjónvarpi og útvarpi. Allt svona frekar óraunverulegt en ég bara spilaði með og var keyrt allt sem ég þurfti að fara af einkabílstjóra á voða fínum bíl.

En svo var komið að því að fara í fyrstu ferðina sem reyndist vera óopinber ferð til Varsjá í Póllandi. Þangað fór ég með öllum verðandi samstarfsmönnum og að sjálfsögðu "shapperoninum" mínum og blaðamannafulltrúa, sem sumir kjósa að kalla lífvörð ;)

Við vorum mætt þarna til Póllands til að skoða aðstæður og fara á nokkra fundi þar sem möguleiki var fyrir að næsta Miss World keppni yrði haldin þar.
Þetta var í sjálfu sér mjög auðveld ferð fyrir mig þannig séð. Fór í nokkrar myndatökur og viðtöl og fékk að skoða mig um í borginni í leiðinni. Það var reyndar eitt sem ég gerði sem var langt frá því að vera auðvelt en ég fór og heimsótti barnaspítala fyrir krabbameinssjúk börn. Ég var í algjörum prinsessukjól og með kórónuna á höfðinu en við notum hana aðeins við sérstök tilefni, fyrir börnin og þegar við erum að vinna að góðgerðarmálum. Það er engin leið að lýsa því hvernig tilfinning var að sjá svipinn á börnunum þegar ég gekk inn í sjúkrastofurnar þeirra.. Þau gjörsamlega ljómuðu og brostu út að eyrum og mér var sagt að mörg þeirra væru búin að bíða eftir mér í marga daga. Ég sat fyrir á mynd með þeim öllum og skrifaði eiginhandaráritanir fyrir þau sem vildu en það versta fannst mér hins vegar að geta ekki talað við þau, því þau skildu enga ensku og ekki tala ég pólsku. Enn ég er staðráðin í því að heimsækja þau aftur og vera þá búin að læra nokkur orð í pólskunni.

Þessi heimsókn var hápunktur ferðarinnar og þessi börn snertu mig djúpt. En aftur á móti tók hún líka ótrúlega mikið á og þegar ég kom út í bíl eftir heimsóknina kom ég ekki upp orði. Ég hafði gefið þeim allt sem ég átti, allure minn styrkur og orka fór til þeirra. Ég var svo þreytt andlega að ef ég hefði leyft mér að loka augunum þá hefði ég sofnað.

Í þessari Póllandsferð eignaðist ég líka vinkonu. Hún heitir Kazha og var Miss Polland 2004 og í 6 stúlkna úrslitum í Miss World 2004. Hún var eiginlega með mér allan tíman í ferðinni og við fórum saman í myndatöku einn daginn á fallegustu stöðum borgarinnar. Við náðum rosalega vel saman og skemmtum okkur vel í tökunni þrátt fyrir nístingskulda, en það voru um -16 stig þennan dag.
Okkur var reyndar svo kalt á einum tímapunkti að við urðum að komast inn og fá eitthvað heitt að drekka. Við settumst inn á lítið sætt pólskt kaffihús og fengum okkur heitt súkkulaði. Virkilega kósý og við sátum bara þarna, hlustuðum á ljúfa tónlist og nutum augnabliksins. Ég heyrði óljóst út frá mér byrjunina á lagi sem ég þekkti vel og ekkert annað lag hefði getað fangað stemmninguna eins fullkomlega. Og hvað haldiði að lagið hafi verið ? Annað en, "My way" með Frank Sinatra.
Gamla aðeins að láta vita af sér enda nákvæmlega ár síðan, upp á dag, frá því að hún fór frá okkur.

Fyrir utan myndatökurnar og heimsóknina þurfti ég að vera viðstödd tvo kvöldverði. Einn óformlegan á pólskum veitingastað þar sem ég smakkaði pólskann mat í fyrsta skipti. Hann er frekar þungur í maga og það sem lýsir honum best er að hann er allur einstaklega brúnn..
En hinn kvöldverðurinn var formlegur sem þýðir síðkjóll og kóróna og var hann á alþjóðlegum veitingastað.

Eftir Pólland fékk ég að koma heim til Íslands en það munði bókstaflega tveim mínútum að ég missti af vélinni heim. Við þurftum taka sprettinn úr terminali 1 yfír í terminal 2 á Heathrow og rétt náðum að tékka mig inn.

Allaf gott að koma heim og hlaða batteríin þó svo að það sé nóg að gera hjá mér heima í ýmsum verkefnum sem eru í bígerð :)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband