Víðáttubrjálæði í Kína.

Loksins finn ég tíma til að byrja aftur. Gæti eytt mörgum orðum í að biðjast afsökunar á skriftarleysi en er að hugsa um að gera það ekki og byrja strax að segja ykkur frá.

Eftir seinni ferðina mína til Póllands fékk ég að koma heima í smá stund og hafði reyndar litla hugmynd um hvað yrði næst á dagskrá þar sem hún breytist nær daglega og ég fæ að vita allt síðust.. Ég sinnti því bara öðrum hlutum í lífi mínu og einu og öðru sem féll til.

Ég fékk ekki mikinn fyrirvara fyrir næstu ferð, það var email tveim dögum áður en ég átti að leggja af stað og ferðinni var heitið alla leið til Sanya í Kína.
Aftur!! Ég fékk hálfgert sjokk þar sem ég hélt að ég mundi fá lengri tíma til að jafna mig á því landi. En nei nei.. Til Kína skildi ég fara og þaðan beint til Bandríkjanna. Allt í allt þriggja vikna ferð og sú lengsta til þessa.

Þegar ég var búin að fara niðrí kínverska sendiráð og brosa mínu blíðasta til að fá visa samdægurs lagði ég af stað til London með tvær fullar ferðatöskur og ferðatölvuna. Held að ég hati ekkert meira en að ferðast með mikið með mér en þó sérstaklega handfarangur.
Það var smá seinkun á vélinni hérna heima og ég var komin seint og síðar meir upp á hótel í London. Þá tók við sama rútína og venjulega sem ég reyni að fylgja eins oft og ég get á kvöldin þegar ég ferðast. Kveiki á 2-3 sprittkertum, helli út í þau lavender olíu og skelli mér í sjóðandi heitt, slakandi bað og þaðan beint upp í rúm. Best í heimi!! :)
Það vill reyndar þannig til að það er ekki baðkar heima hjá mér og held ég að það sé ástæðan fyrir því að ég tek ástfóstri við baðkörin á hótelunum sem ég dvel á .
Ég fékk reyndar símtal rétt fyrir svefninn þetta kvöld frá þar sem mér var greint frá því að si svona að ég mundi þurfa að fljúga ein til Kína morguninn eftir, þar sem fólkið sem átti að hitta mig væri fast í Bandaríkjunum. Var ekkert allt of hrifin fyrst en sjálfstæðið og þrjóskan í mér tók völdin og þessi tveggja daga ferð mín til Sanya gekk bara eins og í sögu, eftir á að hyggja. Ferðin tók 37 klukkutíma allt í allt en ég þurfti að millilenda tvisvar. Fyrst í París og svo Guangshou, Kína.

Þegar ég kom til Sanya gekk ég inn í algjört flashback! Gleymi því aldrei þegar ég kom þarna fyrst í nóvember, með hjartað á fullu og enga hugmynd um hvaða ævintýri biðu mín.
Núna var ég sótt á flugvöllinn og skutlað beint upp á hótel sem var sem betur fer Hilton en ekki Sheraton eins og síðast, hefði verið einum of furðulegt.
En það sem VAR furðulegt var það, að það fyrsta sem ég sá þegar ég gekk út úr flugstöðinni var RISA stórt skilti með meðal annars andlitinu á sjálfum mér. Og ég komst seinna meir að því að þetta skilti var á fleiri en einum og fleiri en tveimur stöðum í Kína. Allstaðar sem við keyrðum blasti þetta við mér.! Merkilegt nokk...

Hótelið var æði. Eitt það flottasta sem ég hef séð. Glæsileg, framandi herbergi og risastórt baðkar. Algjör lúxus! ;)
Ég steinrotaðist þegar ég kom upp á herbergi og vaknaði ekki fyrr en daginn eftir. Enda tímamismunurinn 8 tímar og líkamsklukkan komin í rugl eftir ferðalagið. Ég vaknaði við að síminn hringdi og ég fékk að vita að fólkið var komið að hitta mig en yrði á fundum allan daginn og að þau þyrftu mig ekkert fyrr en í dinner seinna um kvöldið.

Ef ég fæ frítíma í þessum ferðum mínum sem er mjög sjaldgæft er venjan að ég sé bara inn á herbergi, öryggisins vegna. Og þetta hefur alltaf verið þannig að ég má ekki fara neitt eða gera neitt án þess að spyrja um leyfi og þá þarf alltaf einhver að koma með mér, alveg eins og það var í keppninni sjálfri.
En þarna gat ég ekki annað en hugsað mér gott til glóðarinnar.. Var stödd í paradís, 30 stiga hita og glampandi sól, hélt nú ekki að ég ætlaði að fara að hanga inni á herbergi! Þannig að það var bara farið í bikíníið, sólgleraugun sett á nefið og svo spretturinn niðrá strönd. Vakti samt ábyggilega meiri athygli hlaupandi í gengnum sundlaugargarðinn heldur en ella, þannig þetta var kannski ekki besta ?múvið? en satt segja var ég að æsa yfir mig af spenningi en það þarf oft lítið til að gleðja mann á svona ferðalögum.
Fékk algjört víðáttubrjálæði þegar ég kom niðrá strönd, sérstaklega þar sem ég var að gera eitthvað sem ég mátti ekki gera. Ströndin var æði, útsýnið geggjað og ég gat ekki verið hamingjusamari. ( eða jú kannski, ef einhver hefði getað notið þessa með mér, var svoldill Palli einn í heiminum.. hehe..) Ég byrjaði á göngutúr með strandlengjunni með Ipodinn í eyrunum, buslaði aðeins í sjónum, náði mér svo í bekk og lá eins og skata í tvo tíma. Ljúft, vægast sagt..! :)
En þar sem ég var ein, hafði ég engan annan til að taka myndir af og því er bannað að gera grín af sjálfsmyndunum mínum. Átti engra kosta völ! ;)

Lag dagsins var: ?When stars go blue? með Ryan Adams.


Bloggmynd

Bloggmynd

Bloggmynd

Bloggmynd

Bloggmynd


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband