Færsluflokkur: Bloggar
18.5.2006 | 23:55
..Heima er best..
Þegar heim var komið og ég búin að sofa úr mér þreytu síðustu daga lá leiðin beina veginn í matarklúbb með gömlu vinunum. Þar voru mætt Einar og Sandra, Hjörtur og Hera og Edda mín, en Valdi hennar þykist vera að læra á Flórída svo hann var fjarri góðu gamni. Við skemmtum okkur konunglega og alltaf jafn gaman að rifja upp gamlar minningar og hlæja sig máttlaus yfir fíflaganginum sem við höfum tekið uppá í gegnum árin
Daginn eftir var svo hestamót uppí mosó og sætustu tvíburar í heimi að keppa! Þeir enduðu þeir líka báðir með verðlaunapening um hálsinn og stóðu sig eins og hetjur!
Næstu dögum eyddi ég svo meira og minna í hesthúsinu og einhverju stússi en auk þess var á dagskránni ein myndataka og tvö viðtöl eða svo. Ég fór líka á stóru reiðhallarsýninguna í Víðidal og á dansiball með hljómsveitinni Hunang en þar voru ófá danssporin tekin við gamla góða slagara. Brjálað stuð!
Í síðustu viku var ég svo viðstödd hátíðarkvöldverð í Perlunni til heiðurs ræðismönnum Íslands allsstaðar af úr heiminum. Mér var boðið af háttvirtum utnaríkisráðherra, Geir H. Haarde og sat til borðs með honum og stórglæsilegri konu hans henni Ingu Jónu. Aðrir á mínu borði voru m.a heiðursræðismenn frá Bretlandi, Indlandi og Hong Kong.
Mér á vinstri hönd sat ræðismaður Íslands frá Indlandi og er hann einstaklega áhugaverður maður. Grunar að það vaxi bláir peningar á trjánum í garðinum hjá honum en hann á íbúðir í minnst 5 borgum í heiminum. Við spjölluðum mikið og skemmtum okkur vel og áður en kvöldið var á enda var búið að slá því föstu að ég mundi koma út til Indlands að heimsækja þau hjónin síðar á árinu. Meira segja búin að heyra frá þeim og alles þannig að þetta er eitthvað sem er að fara að gerast.
Þetta kvöld rættist einnig langþráður draumur. En ég fékk tækifæri til að hitta og spjalla við Frú Vigdísi Finnbogadóttur sem er kona sem ég met ofsalega mikils. Hún gaf mér nokkur góð ráð sem ég mun án efa geyma fyrir aftan eyrað lengi vel.
Daginn eftir Perluna fór ég svo í skólaheimsóknir í tengslum við verkefni sem ég hef verið að vinna að, með félagi Landsbyggðarvina. Ég er titluð verndari verkefnisins og er það búið að vera í gangi síðan fyrr í vetur. Fyrsti hluti þess gekk út á ritgerðarvinnu grunnskólanema þar sem þau skrifa niður hugmyndir um hvað sem má gera til að betrumbæta umhverfið í þeirra eigin bæjarfélagi. Þá völdum við úr nokkrar ritgerðir og hlutu þeir unglingar sem áttu þrjár bestu hugmyndirnar verðlaun fyrir vikið.
Síðari hluti verkefnisins var svo verklegur, þar þurftu krakkarnir að útfæra hugmyndirnar sínar í máli,myndum eða á annan krefjandi hátt og í síðustu viku fór ég í nokkrar skólaheimsóknir og kynnti mér það sem þau hafa verið að vinna að.
Verðlaunafhending fyrir síðari hluta verkefnisins fer svo fram á morgun föstudaginn 19. maí og eru vegleg verðlaun í boði fyrir þann skóla sem vinnur
Síðan er það bara same old same old, hestar, hesthús, hestamót, hestasýningar. Vinkonur mínar tjáðu mér það um daginn að þær væru komnar með áhyggjur af því að ég myndi á endanum breytast í hest og fannst gott merki um þróun í þá átt þegar þær fréttu af mér í reiðstígvélunum og reiðgallanum með medalíu um hálsinn undir úlpunni, á videoleigu niðrí bæ! Litli Lúúðinn
..Frekar skítt með Eurovision úrslitin í kvöld.. Enn "kemur Ísland", gerum betur næst!
Farin í svefn..
-UB.
18.5.2006 | 17:08
..Vinnan heldur áfram..
Frá Malbork lá leiðin í næsta bæ sem heitir Gdansk og er frægur fyrir hvítu strendirnar sínar. Þar er stefnan að skjóta bikíní myndir af keppendunum og filma "Vote for me" þættina. Við komuna þangað var það sama sagan, móttökuhátíð, blaðamannafundur og hittingur með borgarstjóra, ásamt heimsókn á leikskóla þar sem börnin dönsuðu fyrir mig pólska þjóðdansinn
Eftir dvölina í Gdansk var kominn tími til að snúa við og keyra aftur til Varsjá. Og úff.. aðrir 5 tímar í bílnum sem við vorum búin að vera samgróin við síðustu daga!!
Komum til Varsjá seint seint um kvöld og gistum á flugvallarhóteli þar sem við vorum að fara í flug morguninn eftir. Ég skreið upp í rúm um leið og færi gafst og var meira segja of lúin til að ná mér í kvöldmat.
Flugið var kl. 8 og allur hópurinn ansi syfjaður. Við vorum að fara til borgarinnar Wroclaw og það er um klukkutímaflug þarna á milli. Steinsofnaði um leið og ég settist í vélina og vaknaði ekki fyrr en við lendingu sem var nú ekkert voðalega hentugt þegar uppi var staðið þar sem pressan beið okkar beint fyrir utan flugvélina og ég enn með stýrurnar í augunum!
Það fyrsta sem við gerðum var að fara í smá göngutúr með öllum blaðamönnunum um aðalgötuna og átti ég að vera með kórónuna á mér. Það fannst mér áhyggjuefni því að í fyrsta lagi þá voru við úti á miðri verslunargötu borgarinnar, öðru lagi er ekkert sérstaklega auðvelt að ganga með kórónuna sem er rétt tilt á höfuðið á manni og þá sérstaklega í hælum á hellulagðri götu.
Eftir göngutúrinn hittum við svo borgarstjórann og héldum blaðamannafund og má borgarstjórinn eiga það að hann er ekkert smá hress og skemmtilegur. Þar af leiðandi datt ég í gírinn og sagði meira að segja einn, tvo brandara á fundinum, til tilbreytingar
Eftir fundinn tók við hádegisverður á voða flottum pólskum veitingastað og eftirmiðdeginum var varið í blómasölu á torginu til styrktar barnaspítala sem við heimsóttum svo enn síðar um daginn. Um kvöldið snæddum við svo mjög þægilegan casual kvöldverð með bæjarstjóranum og konu hans, þar sem mikið var hlegið og SUNGIÐ! Ekki spurja mig afhverju!? Líklega einhver pólsk hefð sem ég hef ekki kynnst áður!
Morguninn eftir sátum við svo öll opinberann morgunverðarfund þar sem því var slegið var föstu að í Wroclaw mundi fara fram heljarinnar tískusýning með öllum keppendunum í haust. Og þar verður besta módelið verður valið. Örugglega mjög töff og öðruvísi viðburður en það var ekkert svona þegar ég var í keppninni í fyrra.
Svo skutlað aftur upp á flugvöll en okkur til mikillar mæðu var seinkun á öllu flugi þennan dag. Við þurftum að húka á vellinum í Wroclaw í eina þrjá tíma sem varð til þess að við misstum af tengifluginu okkar frá Varsjá til London og ég þarf af leiðandi af fluginu mínu heim til Íslands um kvöldið. Þetta fannst mér nú toppa allt saman.. Var búið að hlakka endalaust til að komast heim!! Enda ansi strembin ferð frá fyrsta degi...
Við komumst reyndar til London með seinna flugi um kvöldið eftir mikið bras og þras en ég neyddist til að gista á flugvallarhóteli við Heathrow um nóttina þar sem Icelandair vélin var farin og komst ég ekki heim fyrr en seint daginn eftir.
Samt sem áður, alltaf jafn yndislegt að koma heim og fá að hvíla sig aðeins, en ég held ég hafi sofið samfellt í um 15 tíma þegar ég loksins komst í rúmið mitt og á koddann minn sem er mér einstaklega PRECIOUS
Lög ferðarinnar voru án efa,
Just Like Heaven með Katie Melua og
Better Together með Jack Johnson.
-Voru spiluð í tíma og ótíma og á repeat í ipodnum hvenær sem færi gafst..
Þangað til næst, farið vel með ykkur..
og GO Silvía Nótt á sviðinu í kvöld
-Uns
18.5.2006 | 13:56
..Nótt í kastala..
Ég byrjaði daginn eldsnemma á að pakka niður föggum mínum og shine-a mig til. Svo lá leiðin í sjónvarpsviðtal í morgunsjónvarpinu og gekk það bara ágætlega, fyrir utan, að það fór fram á pólsku!!
Ég var með stykki í eyranu þar sem ég heyrði í túlk sem þýddi fyrir mig spurningarnar sem ég fékk. Þessi samskipti í gegnum eyrnastykkið gengu nú hálfbrösulega til að byrja með en ég held að þetta hafi nokkurnveginn sloppið fyrir horn. Ég fékk nú reyndar alltaf þýðinguna frá eyranu svona fimm sekúndum eftir að ég var spurð, þannig að ég leit út eins og ég væri frekar treg, en það var bara fyndið! ;)
Strax eftir útsendinguna vorum við sótt af langferðarbíl en það er nafn með réttu því við vorum svo sannarlega á leiðinni í langferð. Mun lengri en við héldum allavega! Ferðinni var heitið bæjar sem heitir Gzysko til að skoða falleg vötn og skóga og sjá hvort hægt væri að fara með keppendurna í september á þennan stað. Ferðin þangað tók hvorki meira né minna en 5 klukkutíma!! Og þessi langferðarbíll var farinn að vera ansi þröngur, enda hópurinn stór..
Þegar við komum á áfangastað tók hálfur bærinn á móti okkur með lúðrasveit og látum og fjölmiðlarinir biðu eins og villidýr eftir bráð sinni. Í móttökunni hittum við bæjarstjórann og héldum blaðamannafund, en strax eftir það fór ég í heimsókn á barnaspítala í bænum á meðan hinir í hópnum skoðuðu aðstæður.
Þetta var stutt heimsókn, en samt sem áður var tekin ákvörðun um að halda íþróttakeppnina milli Miss World þáttakenda 2006 á þessum stað. Næst lá leiðin í bæ sem heitir Malbork. Þangað voru aðrir tveir tímar í þessum blessaða bíl og ég var orðin snillingur í að dotta í hinum ýmsu stellingum í sætinu sem ég hafði. Held að hinar ýmsu rútuferðir í menntaskóla hafi gert þar gæfumuninn því æfingin skapar meistarann og það á þá líka við um svefnstellingar í rútu, enda var frægasta rútuferðin frá þein árum, 12 tíma rútuferð til Neskaupstaðar og 12 tíma til baka í tilefni Gettu Betur!! (já dauði, en var samt þess virði)
Við komum til Malbork seint um kvöldið og þegar við keyrðum inn í bæinn keyrðum við inn í hina svörtustu þoku. Ég vissi ekki hvar við ættum að gista og í rauninni hafði ég ekki hugmynd um hvað við vorum að fara að skoða þarna, enda ekki sú fyrsta á listinum til að upplýsa um dagskrá.
Get því ekki sagt annað en mér hafi heldur betur brugðið í brún þegar við renndum upp að gígantískt stórum kastala og var sagt að þar ættum við að vera yfir nóttina. Þessi kastali er frá 14. öld og sá elsti og stærsti í heiminum sem stendur enn í sinni upphaflegu mynd.
Við byrjuðum á að snæða kvöldverð með bæjarstjóranum og þar sem við vorum örlítið sein á ferðinni var enginn tími til að skipta um föt eða fríska sig upp og hef ég sjaldan verið jafn þreytuleg og þetta kvöld :/ Spjallaði þó við bæjarstjórann og umsjónarmann kastalans undir matnum og gat ekki setið á mér að spurja þá að því hvort það væri reimt í kastalanum. Þeir horfðu á mig stórum augum og sögðu svo: "Að sjálfsögðu er reimt hérna". Það væri nú eitthvað að ef svo væri ekki!!!Þarna fóru fram mörg stríðin fyrr á öldum og pólverjar notuðu kastalann m.a til að verjast þjóðverjunum í seinni heimstyrjöldinni.
Humm.. Get nú ekki sagt að ég hafi orðið mikið rórri eftir þessar upplýsingar, enda alltaf haft óstjórnlegan áhuga á öllu yfirnáttúrulegu og trúi svo sannarlega á það, að það taki eitthvað við eftir þetta líf.. Hvað það nú er, læt ég liggja á milli hluta.
Fékk nú eiginlega pínulítinn hroll þegar ég gekk ein eftir dimmum hótelganginum og horfði óþreyjufull á tölurnar á hurðunum, leitandi eftir númerinu sem var á lyklinum mínum. En gat nú skeð, eins og oft áður hafði ég fengið svítuna í þessum hluta kastalans og hún var eins langt í burtu frá hinu fólkinu og hægt var.
Herbergið sjálft var einstaklega gamaldags, lágir hurðarkarmar, eldgömul húsgögn og rúmið öðruvísi en maður á að venjast, en koddinn var innbyggður í dínuna!! Þarna var ég ein með sjálfri mér, gat ekki hlustað á tónlist eða neitt því innstungurnar voru of gamaldags, og gerði því lítið annað en að hræða sjálfa mig. Heyrði alls konar hljóð, brak og bresti og endaði á því að þurfa að hringja heim til að dreifa huganum ;)
Eftir mjög hughreystandi símtal að heiman, hélt ég áfram að reyna að sofna, en rúmfötin sem voru á rúmminu voru eitthvað sem ég er ekki vön. Silkirúmföt, bæði lakið og sængurfötin og því fór ég í rúmið í joggaranum. Þegar mig tókst loksins að sofna dreymdi mig og dreymdi skrítnustu hluti. Konur með hár niðrá hæla og ég veit ekki hvað og hvað! En morguninn eftir vaknaði ég við að sólargeislarnir streymdu inn í herbergið og allur taugatitringur frá kvöldinu áður var á bak og burt. Og þá fyrst sá ég út um gluggann hversu hrikalega stór og stórfenglegur þessi kastali er og hlakkaði mikið til að sjá meira af honum.
Það fyrsta sem við gerðum þennan dag var að heimsækja barnaheimili fyri börn sem búið höfðu við heimilsofbeldi. Þau höfðu undirbúið söngatriði fyrir mig og sungu bæði á ensku og pólsku og voru í einu orði sagt yndisleg!
Eftir það lá leið okkar á skrifstofu bæjarstjóra þar sem haldinn var enn einn blaðamannafundurinn og eins og oft áður kom prince polo til tals.. Eftir fundinn heimsóttum við svo barnaspítala í bænum á meðan fólkið skoðaði kastalann og umhverfi hans enn betur, en við hittum þau svo stuttu síðar og fórum í smá útsýnistúr um þessa stórkostlegu byggingu. Planið er svo að koma með allar 100 stelpurnar þangað í september og leyfa þeim að upplifa það að gista í draugakastala. Spennandi! ;)
Ekki meira í bili... Það er stutt í næstu færslu þar sem þið fáið að heyra hvernig þessari ferð lauk!
-UB
12.5.2006 | 18:37
..Veðurblíða..
Við vöknum eldsnemma morguninn eftir og það fyrsta sem við gerðum var að heimsækja elsta barnaspítala borgarinnar..
Þó að það skemmtilegasta sem ég geri í þessum ferðum mínum sé að heimsækja börnin á spítulunum þá er það líka það erfiðasta. Átakanlegt að sjá svona lítil börn fárveik eða alvarlega slösuð. Og þessi morgun var engin undantekning. Við eyddum tveim tímum á spítalanum, mun lengur en ætlunin hafði verið því ég vildi heimsækja allar deildirnar og ekki skilja neinn út undan.
Eftir heimsóknina röltum við svo um á ofsalega fallegu torgi í miðbænum og sleiktum sólina og ég reyndi að draga djúpt andann, jafna mig eftir morguninn og koma mér í gírinn fyrir verkefni dagsins.
Undir hádegi var komið að því að fara á fund borgarstjórans og halda blaðamannafund á skrifstofu hans. Þar var tilkynnt að lokakvöld Miss World 2006, úrslitin sjálf, fara fram í Varsjá og voru blaðamennirnir og aðrir viðstaddir að sjálfsögðu í skýjunum yfir því. Annars hafði ég á tilfinningunni að þeir hefðu meiri áhuga á spurja mig út í pólska karlmenn og álit mitt á þeim heldur en keppninni yfir höfuð. Og svo sló ég alveg í gegn þegar ég sagði þeim að PRINS POLO væri eitt vinsælasta súkkulaðibar á Íslandi og þegar ég var barn hefði ég alltaf haldið að það væri ALíslenskt!
Síðan ég sagði þetta var mér boðið uppá prince polo hvar sem ég kom, og það kæmi mér ekki á óvart að ég fengi sendar birgðir fyrir lífstíð af prince polo!!
Enn dagurinn hélt áfram.. og eftir blaðamannafundinn fórum við í tvo þjóðgarða í borginni með pressunni og ég var beðin um að pósa við fjöldann allan af sögulegum styttum og byggingum.
Næst á dagskrá var heimsókn í dýragarð borgarinnar og var það bara ansi skemmtilegt. Sérstaklega þar sem veðrið var upp á sitt besta! Ég fékk m.a að gefa nashyrning og fílum að borða og svo var ekki verra að vera keyrð um á sérstökum útsýnisbíl, á meðan allir hinir þurftu að labba
Um kvöldið fórum við svo út að borða á pólskann veitingastað og sátum úti undir berum himni og nutum matarins..
Ég fékk sem betur fer að fara snemma uppá herbergi til að hvíla mig því næsta morgun þurfti ég að vakna kl. 4 og vera tipp topp tilbúin fyrir morgunsjónvarpsviðtal kl. 5.30. Sem er ókristilegur tími!! Og ég get ekki sagt að ég hafi verið sú ferskasta!
En þarf að hætta í bili..! Ferðasagan heldur áfram innan skamms!
-UB
Ps. Ef þið voruð að velta því fyrir ykkur þá er dökkhærða stelpan sem er með mér á mjög mörgum myndum úr ferðinni, góðvinkona mín Kascha, Miss Polonia 2004
10.5.2006 | 19:27
..Cirkusinn heldur áfram..
Jæja, jæja, jæja.. Við höldum áfram..
Einn fallegan föstudagsmorgun í apríl var ég vakin upp við símhringingu frá London og var tilkynnt að mín væri þarfnast út til London tveim dögum seinna. Þetta fannst mér nú heldur stuttur fyrirvari en var samt sem áður meira en tilbúin að fara og út og sinna þessu starfi mínu áfram. Búin að finnast ég eiginlega einum of dekruð að fá að vera svona mikið heima. Er samt ítrekað sagt að reyna að njóta þess í botn þar sem að í vor og sumar muni ég verða í burtu heilu og hálfu mánuðina..
Allavega.. Ég glaðvaknaði að sjálfsögðu, dró fram skipulagsbókina og fór að plana það sem ég þurfti að koma í verk áður en ég færi. Sárvantaði að komast í neglur niðrí Heilsu og fegurð og í litun niðrá Mojo og var því reddað í einum grænum enda yndislegt fólk þar á ferð! Svo þurfti að drösla kjólunum í hreinsun og gera og græja. Það er nú reyndar alltaf sama sagan, ég hafði ekki hugmynd um hvað ég yrði lengi né heldur hvað ég var að fara að gera!! Það eina sem ég vissi var að förinni var heitið til Póllands í ÞRIÐJA skiptið á árinu..
Þessir tveir dagar liðu ofsalega hratt og ég vissi eiginlega ekki af mér fyrr en ég sat í flugleiðavélinni á leiðinni til london.. Þar þurfti ég hins vegar að dúsa á flugvellinum í eina 6 tíma þar til ég hitti restina af fólkinu sem var að koma með mér til Póllands. Og ég get svo svarið það, ég er farin að þekkja hvern krók og kima á þessum velli og meira að segja farin að vafra á milli terminala án þess að valda usla
Þetta var stór í hópur í þetta skiptið sem steig frá borði í höfuðborg Póllands, Varsjá. En þetta var sem sagt vinnu ferð, sem snérist í einu og öllu um viðskipti.. Við fórum nú samt beint upp á hótel að sofa, sem betur fer því ég hafði eitt einum 13 klukkutímum af þessum degi á flugvöllum og í flugvélum.
Daginn eftir byrjaði ég á því að gera mig til og og fara niðrí morgunmat með fólkinu. Finnst alltaf jafn kjánalegt að vera uppstríluð svona eldsnemma morguns, með krullað hárið og gloss á vörunum, en þetta er víst það sem fylgir og maður þarf að taka þátt í þessu alveg til enda, eins og maður gerði í keppninni sjálfri í Kína.
Fyrsta verkefnið mitt þennan dag var að taka þátt í herferð sem stuðlar að umferðaröryggi í borginni og átti ég að afhenda þeim ökumönnum sem stóðust viss próf grænan krókódílabangsa. Og þeir urðu voða stoltir!! Frekar skondið.. ;) Á meðan sat fólkið fundi og skoðaði aðstæður fyrir keppendurna sem eru væntanlegir í byrjun september.
Ég held að hver einasti blaðamaður borgarinnar hafi verið á staðnum til að festa á filmu hvert skref sem ég tók í tengslum við þessa umferðarherferð.. Og ég get ekki neitað því að ég var pínulítið uppgefin eftir þetta fjölmiðlafár og því mjög fegin þegar ég komst að því að það var ekkert meira á dagskránni fyrir mig þennan dag..
En talandi um dagskrá og áætlanir þá aldrei þessu vant fékk ég plan fyrir alla vikuna þegar ég mætti, en eins og búast mátti við stóðst ekki einn einasti dagskráliður í þessu blessaða plani! Mér til mikillar mæðu og ég þurfti að vinna í myrkrinu allan tímann. Vissi aldrei hvar ég mundi vera næsta klukkutímann!
Framhald á morgun..
Stay tuned!!
-UB
12.4.2006 | 13:40
..Sveitasæla..
Bloggleysið stafar af því að síðustu daga valdi ég sveitasæluna í stað borgarlífsins. Er sem sagt búin að vera fyrir austan.. Stakk af úr bænum um leið og fermingarveisla Villa bróður var á enda á sunndaginn. En dagskráin hafði verið þétt um helgina. Ýmsir staðir sem ég þurfti að mæta á og svo var ég líka að keppa á laugardagskvöldið eins og ég sagði ykkur frá.
Gekk bara nokk vel. Ekki alveg eins vel og ég hefði kosið kannski en þegar uppi var staðið var ég bara sátt. Í mesta lagi 5% lesanda skilja hvað ég er að fara þegar ég gef ykkur þessa skýrslu:
-Hæga töltið á mörkunum við að vera of hratt.
-Önnur hraðabreytingin virkilega góð, hin síðri.
-Yfirferðin góð í heilan hring, svo var riðið upp undir mig og ég missti hann upp hálfa langhlið áður en þulur sagði sýningu lokið.
-Hesturinn var að springa úr vilja og þetta var í 3 skiptið sem ég fór á bak á honum. Reið hátt í 6 í einkunn og get bara ekki verið annað en sátt miðað við þessa langt frá því gallalausa sýningu.
Annars var sveitasælan jafn ljúf og ávallt.. Videogláp, góður matur, hestastúss, fjórhjólaferðir og hundalíf. Gerist ekki mikið betra. Tók mig alveg úr sambandi við umheiminn í þessa tvo daga og hefði helst viljað vera lengur. En ég fer aftur um páskana það er alveg á hreinu.
Er að leita mér að hesti þessa dagana.. Góðum töltara sem er bæði hægt að nota í keppni og útreiðar. Er einmitt að fara í leiðangur austur að skoða nokkra hjá Hafliða á Ármóti seinna í dag.
Kvöldið óráðið.. Verð í Reykjavíkinni þannig að það er aldrei að vita nema maður kíki á stelpurnar sem eru líklegast að fara að lyfta sér upp.
-gangið hægt um gleðinnar dyr-
Kveðja,
Uns.
6.4.2006 | 13:18
..Gamli rauður kveður..
Það er nú bara þannig að reglulega kemur tími á að breyta til og í þetta skipti er það gamli krúttilegi Yarisinn minn sem verður fyrir barðinu. Þær eru endalausar góðu minningarnar sem tengjast þessu tryllitæki, enda á hann ófá roadtrip-in að baki sem og heilu partyin sem af einhverjum óútskýranlegum ástæðum hafa farið fram að hluta til innanborðs þessa bíls.
Númerið á honum hefur alltaf haft táknræna merkingu -NG 085- eða eins og við stelpurnar þýddum það.. -Nokkuð Gott 85'- og það hefur ætíð verið regla í roadtripunum okkar að spila aðeins 80' tónlist í botni og tralla með eins og við eigum lífið að leysa.. Þannig að ég ætla rétt að vona að verðandi eigandi hver sem það nú er, haldi hefðum í hávegum og svo að sjálfsögðu klappi honum reglulega ;)
En það kemur alltaf maður í manns stað ( og í þetta skipti bíll) sem er svo sannarlega ekki af verri endanum. Bílinn sem ég fjárfesti í í staðinn heitir Hyundai Tucson og er draumabílinn minn eins og er. Fékk hann í vikunni og er alveg í skýjunum með hann. Loksins komin á jeppa eða jeppling sem hentar einstaklega vel í hestastússið.
Þetta er algjör græja þó að ég hafi nú kannski minnst vit á bílum. Lúxus útgáfa með öllum mögulegum þægindum "slash" töffarastælum eftir því hvernig á það er litið. Einkanúmer, skyggðar rúður, topplúga, leðursæti, álfelgur og svona gæti ég lengi talið. En þennan glæsilega pæjubíl fann ég hjá Bifreiða og landbúnaðarvélum eða "B&L" eins og það er betur þekkt sem.
En jæja kominn tími til að hætta þessu monti.. Get nú samt lítið gert að því að ég er pínu stolt, allavega svona rétt á meðan nýjabrumið er að renna af þessum kaflaskilum í bílamálum hjá mér ;)
Annars er lítið að frétta.. Eyddi tveim heilum dögum í tökur með honum Jóni Ársæli í vikunni en ég verð gestur í þættinum hjá honum á sunnudaginn.. Verð að segja að það var virkilega skemmtilegt að vinna með honum og hans fólki og mikill heiður að fá að taka þátt, enda þátturinn Sjálfstætt Fólk, að mínu mati einn flottasti á Íslandi í dag.
Í gærdag var ég svo kynnir á nemendasýningu Dansskóla Birnu Björnssdóttur sem fór fram í Borgarleikhúsinu. Þar hef ég verið að æfa og kenna dans síðastliðin fjögur ár en eins og gefur að skilja þurfta að taka mér frí í vetur. Ekkert smá gaman samt að hitta alla gömlu nemendurna mína og sjá stúlkur á öllum aldri sýna listir sýnar á sviðinu.
Svo er það bara hestamennskan, er fara að keppa um helgina í Kvennatölti Gusts sem er ein vinsælasta töltkeppni í hestamannageiranum. Ákvað að skella mér, bara að gamni, þó svo að ég sé búin að hafa lítinn tíma til geta þjálfað í vetur. Fékk lánaðann hest í vikunni sem ég hef náð að fara á bak þrisvar þannig að það verður fróðlegt að sjá hvernig þetta fer með svona litlum undirbúningi. En eins þeir segja það er ekki alltaf málið að vinna, heldur að vera með. (Þó svo að það fari nú kannski fyrir ofan garð og neðan í öllu keppnisskapinu ;)
Þarf að hætta..
Þangað til næst..
-UB
1.4.2006 | 15:51
..Lykt af vorinu í London..
Er mjög afslöppuð og bara ágætlega stemmd fyrir kvöldinu. Hef ákveðið að gera mér ekki neinar vonir um að einhver skemmtilegur eigi afmæli því maður veit nú aldrei. Kannski er þetta einhver gamall lord sem er að halda upp á sjötugs afmælið sitt. Þá verð ég nú reyndar ponsu svekkt, því það er annar staður sem mig langar einstaklega mikið að vera á í kvöld.
Það er í skautahöllinni í Rvk. eins furðulega og það hljómar ;) Þar fer fram töltkeppni í hestaíþróttum þar sem er ávallt mikil stemmning.
Hitti Ragnheiði Guðfinnu í morgun þar sem við röltum aðeins um Hyde Park og svo fór ég niðrí Covent Garden í skóleiðangur.
Veðrið hér í London er búið að vera æðislegt í dag. Sól og um 15 stiga hiti, sem er ekki slæmt miðað við það sem maður á að venjast. Rölti um Covent Garden með Damien Rice í eyrunum í um tvo tíma. Ekkert smá kósý, en enn og aftur þá hefði nú verið skemmtilegra að hafa einhvern með sér. Er harðákveðin í því að næst þegar ég fer í svona stutta ferð til London dreg ég einhvern með, enda nóg pláss í herberginu mínu! ;)
Er reyndar búin að vera að hugsa rosalega mikið í dag og þá sérstaklega til einnar manneskju sem hreiðraði sterklega um sig í kollinum á mér.
Stundum erfitt að vera svona mikið einn með sjálfum sér því heima þá bregst það ekki að ég er í kringum fólk. Ég á það nefnilega til að hugsa of mikið á svona stundum en það getur hins vegar líka verið þægilegt að fá aðeins að anda í einrúmi.
Enn jæja.. Ætla að hætta þessu þvaðri.. Þarf að klára að setja upp andlit ;)
Hafið það gott þarna heima.
Þangað til næst..
-UB
Lag og texti dagsins: Delicate (Damien Rice)
31.3.2006 | 23:10
"One down, two to go"
Sú saga var nefnilega þannig að þegar ég var ráðin til starfa hjá honum voru aðeins nokkrir dagar í ungfrú Ísland keppnina. Þegar kom að keppnisdegi tilkynnti hann mér og brosti út í annað, að það væri venjan að fólk á þessum vinnustað sigraði sínar keppnir og kæmi með dolluna í hús. Eftir keppnina var hann svo að sjálfsögðu ánægður með sína, en bætti því þó við að það hefði nú verið óþarfi að taka þetta svona bókstaflega og hirða næstum öll verðlaunin, en ég fékk óþægilega marga borða þetta kvöld.
En ef maður hlýðir ekki skipunum frá sýslumanninum sjálfum.. hverjum þá..?
Annars var gærkvöldið æðislegt kvöld. Ótrúlega gaman að fá að sitja sallaróleg út í sal og horfa á skvísurnar í ungfrú Reykjavík keppninni á sviðinu og þurfa ekki að hafa áhyggjur af neinu. Var reyndar á ferð og flugi um húsið allt kvöldið. Mikið af góðu fólki til að spjalla við og svo gat ég ekki stillt mig um að kíkja einstaka sinnum á stelpurnar baksviðs.
Get ekki sagt að ég hafi fundið fyrir söknuði vði að afkrýna sjálfa mig þessum titli enda er ég langt frá því búin að sinna mínum skildum í þessum bransa. Fannst þetta bara virkilega gaman og var að fara yfir um af spenningi fyrir stelpnanna hönd þegar hið fræga "krýningarlag" tók að spilast þarna á Broadway.
Maður fær nú alltaf smá gæsahúð.. ;)
Stelpurnar sem lentu í fyrstu þrem sætunum þær Jóna, Ásdís og Soffía voru allar stórglæsilegar, í trufluðum kjólum og æðislegar í alla staða. Áttu þetta fyllilega skilið og óska ég þeim enn og aftur innilega til hamingju. Sem og hinum stelpunum til hamingju með frábært kvöld. Hver og ein gjörsamlega blómstraði.
Ég hins vegar, er komin til Lundúna og sit hérna inn á hóteleherbergi og hef það notalegt. Held ég skelli mér fljótlega í draumaheiminn enda þarf ég að taka daginn snemma á morgun og finna fermingarskó handa litla bró sem fermist næstu helgi. Það er alveg þokkalegt "mission" þarf sem ég er með aðeins eina skó í huga og engir aðrir koma til greina á drenginn.. ;)
Í hádeginu á morgun ætla ég svo að hitta hana Röggu Guðna á NFS í stutt spjall og þykir mér líklegt að þið fáið að sjá afraksturinn af því einhvertíman í næstu viku.
Hins vegar er aðalástæðan fyrir því að ég er hér, þetta stórmerkilega og einkar dularfulla afmælisboð sem ég er að fara í annað kvöld. Er ennþá engu nær um hver á afmæli og ætli ég komist nokkuð að því fyrr en ég mæti.
Annars var verið að uppfæra Miss World síðuna þannig að ég mæli með því að þið kíkið á hana! Mun flottari þetta ár heldur en í fyrra.
Þar eru líka myndir og viðtal sem var tekið við mig í annari hvorri ferðinni til Póllands.
Læt þær myndir fylgja með hér ;)
30.3.2006 | 14:07
..Lasarus..
Hefur tekist að bralla ýmislegt.. Sjónvarpsgláp með vinkonunum, Oddféló fundur með Ömmu, heimsókn á Broadway æfingar hjá ungfrú Reykjavík skvísunum, stórafmælisboð, og svo aðalmálið.. mér tókst að gera mig veika.
Kaus að eiga heima í hesthúsinu og þar með utandyra í nokkra daga, fyrir og um helgina, og þar sem kuldaboli er ekki góður vinur minn náði ruddalegt kvef taki á mér og ég hefði átt að leggjast undir sæng.
En ég hafði nú bara ekki tíma til að vera veik þessa daga þannig að ég gerði allt sem ég átti ekki að gera, reið út, keppti og allar græjur sem var þó með eindæmum skemmtilegt og þess virði.
Það kom hins vegar í bakið á mér eftir helgina og ég enn að reyna að svæla veikindin út með C vítamínum, sólhatti, hvítlaukshylkjum, engifer og ég veit ekki hvað og hvað.
Það sem er næst á dagskrá er að krýna Ungfrú Reykjavík 2006. Keppnin fer fram í kvöld en ég kíkti á generalprufuna hjá stelpunum í gær, rosa flott show hjá þeim og stelpurnar hver annarri flottari. Ég eiginlega virkilega vorkenni þeim sem sitja í dómnefnd í kvöld og þurfa að velja aðeins einn sigurvegara. En þetta verður spennandi, það er morgunljóst.
Í fyrramálið þarf ég svo að pakka hið snarasta því ég flýg til London seinnipartinn. Er að fara í eitthvað stórkostlegt afmæli (eins og það var orðað í emailinu) á laugardagskvöldið, en það fynda við það er að ég hef ekki hugmynd um hver á afmæli ;)
Læt ykkur vita um leið og ég kemst að því!
Bless í bili..
-UB