..Veðurblíða..

Við vöknum eldsnemma morguninn eftir og það fyrsta sem við gerðum var að heimsækja elsta barnaspítala borgarinnar..

Þó að það skemmtilegasta sem ég geri í þessum ferðum mínum sé að heimsækja börnin á spítulunum þá er það líka það erfiðasta. Átakanlegt að sjá svona lítil börn fárveik eða alvarlega slösuð. Og þessi morgun var engin undantekning. Við eyddum tveim tímum á spítalanum, mun lengur en ætlunin hafði verið því ég vildi heimsækja allar deildirnar og ekki skilja neinn út undan.

Eftir heimsóknina röltum við svo um á ofsalega fallegu torgi í miðbænum og sleiktum sólina og ég reyndi að draga djúpt andann, jafna mig eftir morguninn og koma mér í gírinn fyrir verkefni dagsins.

Undir hádegi var komið að því að fara á fund borgarstjórans og halda blaðamannafund á skrifstofu hans. Þar var tilkynnt að lokakvöld Miss World 2006, úrslitin sjálf, fara fram í Varsjá og voru blaðamennirnir og aðrir viðstaddir að sjálfsögðu í skýjunum yfir því. Annars hafði ég á tilfinningunni að þeir hefðu meiri áhuga á spurja mig út í pólska karlmenn og álit mitt á þeim heldur en keppninni yfir höfuð. Og svo sló ég alveg í gegn þegar ég sagði þeim að PRINS POLO væri eitt vinsælasta súkkulaðibar á Íslandi og þegar ég var barn hefði ég alltaf haldið að það væri ALíslenskt!

Síðan ég sagði þetta var mér boðið uppá prince polo hvar sem ég kom, og það kæmi mér ekki á óvart að ég fengi sendar birgðir fyrir lífstíð af prince polo!! Glottandi

Enn dagurinn hélt áfram.. og eftir blaðamannafundinn fórum við í tvo þjóðgarða í borginni með pressunni og ég var beðin um að pósa við fjöldann allan af sögulegum styttum og byggingum.

Næst á dagskrá var heimsókn í dýragarð borgarinnar og var það bara ansi skemmtilegt. Sérstaklega þar sem veðrið var upp á sitt besta! Ég fékk m.a að gefa nashyrning og fílum að borða og svo var ekki verra að vera keyrð um á sérstökum útsýnisbíl, á meðan allir hinir þurftu að labbaSvalur

Um kvöldið fórum við svo út að borða á pólskann veitingastað  og sátum úti undir berum himni og nutum matarins..

Ég fékk sem betur fer að fara snemma uppá herbergi til að hvíla mig því næsta morgun þurfti ég að vakna kl. 4 og vera tipp topp tilbúin fyrir morgunsjónvarpsviðtal  kl. 5.30. Sem er ókristilegur tími!! Og ég get ekki sagt að ég hafi verið sú ferskasta!Ullandi

En þarf að hætta í bili..! Ferðasagan heldur áfram innan skamms!

 -UB

Ps. Ef þið voruð að velta því fyrir ykkur þá er dökkhærða stelpan sem er með mér á mjög mörgum myndum úr ferðinni, góðvinkona mín Kascha, Miss Polonia 2004Brosandi


..Cirkusinn heldur áfram..

Jæja, jæja, jæja.. Við höldum áfram..

Einn fallegan föstudagsmorgun í apríl var ég vakin upp við símhringingu frá London og var tilkynnt  að mín væri þarfnast út til London tveim dögum seinna. Þetta fannst mér nú heldur stuttur fyrirvari en var samt sem áður meira en tilbúin að fara og út og sinna þessu starfi mínu áfram. Búin að finnast ég eiginlega einum of dekruð að fá að vera svona mikið heima. Er samt ítrekað sagt að reyna að njóta þess í botn þar sem að í vor og sumar muni ég verða í burtu heilu og hálfu mánuðina..

Allavega.. Ég glaðvaknaði að sjálfsögðu, dró fram skipulagsbókina og fór að plana það sem ég þurfti að koma í verk áður en ég færi. Sárvantaði að komast í neglur niðrí Heilsu og fegurð og í litun niðrá Mojo og var því reddað í einum grænum enda yndislegt fólk þar á ferð! Svo þurfti að drösla kjólunum í hreinsun og gera og græja. Það er nú reyndar alltaf sama sagan, ég hafði ekki hugmynd um hvað ég yrði lengi né heldur hvað ég var að fara að gera!! Það eina sem ég vissi var að förinni var heitið til Póllands í ÞRIÐJA skiptið á árinu..

Þessir tveir dagar liðu ofsalega hratt og ég vissi eiginlega ekki af mér fyrr en ég sat í flugleiðavélinni á leiðinni til london.. Þar þurfti ég hins vegar að dúsa á flugvellinum í eina 6 tíma þar til ég hitti restina af fólkinu sem var að koma með mér til Póllands. Og ég get svo svarið það, ég er farin að þekkja hvern krók og kima á þessum velli og meira að segja farin að vafra á milli terminala án þess að valda uslaSvalur

 Þetta var stór í hópur í þetta skiptið sem steig frá borði í höfuðborg Póllands, Varsjá. En þetta var sem sagt vinnu ferð, sem snérist í einu og öllu um viðskipti.. Við fórum nú samt beint upp á hótel að sofa, sem betur fer því ég hafði eitt einum 13 klukkutímum af þessum degi á flugvöllum og í flugvélum.

 Daginn eftir byrjaði ég á því að gera mig til og og fara niðrí morgunmat með fólkinu. Finnst alltaf jafn kjánalegt að vera uppstríluð svona eldsnemma morguns, með krullað hárið og gloss á vörunum, en þetta er víst það sem fylgir og maður þarf að taka þátt í þessu alveg til enda, eins og maður gerði í keppninni sjálfri í Kína.

Fyrsta verkefnið mitt þennan dag var að taka þátt í herferð sem stuðlar að umferðaröryggi í borginni og átti ég að afhenda þeim ökumönnum sem stóðust viss próf grænan krókódílabangsa. Og þeir urðu voða stoltir!! Frekar skondið.. ;) Á meðan sat fólkið fundi og skoðaði aðstæður fyrir keppendurna sem eru væntanlegir í byrjun september.

Ég held að hver einasti blaðamaður borgarinnar hafi verið á staðnum til að festa á filmu hvert skref sem ég tók í tengslum við þessa umferðarherferð.. Og ég get ekki neitað því að ég var pínulítið uppgefin eftir þetta fjölmiðlafár og því mjög fegin þegar ég komst að því að það var ekkert  meira á dagskránni fyrir mig þennan dag..

En talandi um dagskrá og áætlanir þá aldrei þessu vant fékk ég plan fyrir alla vikuna þegar ég mætti, en eins og búast mátti við stóðst ekki einn einasti dagskráliður í þessu blessaða plani! Mér til mikillar mæðu og ég þurfti að vinna í myrkrinu allan tímann. Vissi aldrei hvar ég mundi vera næsta klukkutímann!

Framhald á morgun..

 Stay tuned!!Glottandi

-UB


..Sveitasæla..

Bloggleysið  stafar af því að síðustu daga valdi ég sveitasæluna í stað borgarlífsins. Er sem sagt búin að vera fyrir austan.. Stakk af úr bænum um leið og fermingarveisla Villa bróður var á enda á sunndaginn. En dagskráin hafði verið þétt um helgina. Ýmsir staðir sem ég þurfti að mæta á og svo var ég líka að keppa á laugardagskvöldið eins og ég sagði ykkur frá.

Gekk bara nokk vel. Ekki alveg eins vel og ég hefði kosið kannski en þegar uppi var staðið var ég bara sátt. Í mesta lagi 5% lesanda skilja hvað ég er að fara þegar ég gef ykkur þessa skýrslu:

-Hæga töltið á mörkunum við að vera of hratt.

-Önnur hraðabreytingin virkilega góð, hin síðri.

-Yfirferðin góð í heilan hring, svo var riðið upp undir mig og ég missti hann upp hálfa langhlið áður en þulur sagði sýningu lokið.

-Hesturinn var að springa úr vilja og þetta var í 3 skiptið sem ég fór á bak á honum. Reið hátt í 6 í einkunn og get bara ekki verið annað en sátt miðað við þessa langt frá því gallalausa sýningu.

Annars var sveitasælan jafn ljúf og ávallt.. Videogláp, góður matur, hestastúss, fjórhjólaferðir og hundalíf. Gerist ekki mikið betra. Tók mig alveg úr sambandi við umheiminn í þessa tvo daga og hefði helst viljað vera lengur. En ég fer aftur um páskana það er alveg á hreinu.

Er að leita mér að hesti þessa dagana.. Góðum töltara sem er bæði hægt að nota í keppni og útreiðar. Er einmitt að fara í leiðangur austur að skoða nokkra hjá Hafliða á Ármóti seinna í dag.

Kvöldið óráðið.. Verð í Reykjavíkinni þannig að það er aldrei að vita nema maður kíki á stelpurnar sem eru líklegast að fara að lyfta sér upp.Glottandi

-gangið hægt um gleðinnar dyr-

Kveðja,

Uns.


..Gamli rauður kveður..

Það er nú bara þannig að reglulega kemur tími á að breyta til og í þetta skipti er það gamli krúttilegi Yarisinn minn sem verður fyrir barðinu. Þær eru endalausar góðu minningarnar sem tengjast þessu tryllitæki, enda á hann ófá roadtrip-in að baki sem og heilu partyin sem af einhverjum óútskýranlegum ástæðum hafa farið fram að hluta til innanborðs þessa bíls.

Númerið á honum hefur alltaf haft táknræna merkingu -NG 085- eða eins og við stelpurnar þýddum það.. -Nokkuð Gott 85'- og það hefur ætíð verið regla í roadtripunum okkar að spila aðeins 80' tónlist í botni og tralla með eins og við eigum lífið að leysa.. Þannig að ég ætla rétt að vona að verðandi eigandi hver sem það nú er, haldi hefðum í hávegum og svo að sjálfsögðu klappi honum reglulega ;)

En það kemur alltaf maður í manns stað ( og í þetta skipti bíll) sem er svo sannarlega ekki af verri endanum. Bílinn sem ég fjárfesti í í staðinn heitir Hyundai Tucson og er draumabílinn minn eins og er. Fékk hann í vikunni og er alveg í skýjunum með hann. Loksins komin á jeppa eða jeppling sem hentar einstaklega vel í hestastússið.

Þetta er algjör græja þó að ég hafi nú kannski minnst vit á bílum. Lúxus útgáfa með öllum mögulegum þægindum "slash" töffarastælum eftir því hvernig á það er litið. Einkanúmer, skyggðar rúður, topplúga, leðursæti, álfelgur og svona gæti ég lengi talið. En þennan glæsilega pæjubíl fann ég hjá Bifreiða og landbúnaðarvélum eða "B&L" eins og það er betur þekkt sem.

En jæja kominn tími til að hætta þessu monti.. Get nú samt lítið gert að því að ég er pínu stolt, allavega svona rétt á meðan nýjabrumið er að renna af þessum kaflaskilum í bílamálum hjá mér ;)

 Annars er lítið að frétta.. Eyddi tveim heilum dögum í tökur með honum Jóni Ársæli í vikunni en ég verð gestur í þættinum hjá honum á sunnudaginn.. Verð að segja að það var virkilega skemmtilegt að vinna með honum og hans fólki og mikill heiður að fá að taka þátt, enda þátturinn Sjálfstætt Fólk, að mínu mati einn flottasti á Íslandi í dag.

Í gærdag var ég svo kynnir á nemendasýningu Dansskóla Birnu Björnssdóttur sem fór fram í Borgarleikhúsinu. Þar hef ég verið að æfa og kenna dans síðastliðin fjögur ár en eins og gefur að skilja þurfta að taka mér frí í vetur. Ekkert smá gaman samt að hitta alla gömlu nemendurna mína og sjá stúlkur á öllum aldri sýna listir sýnar á sviðinu.

Svo er það  bara hestamennskan, er fara að keppa um helgina í Kvennatölti Gusts sem er ein vinsælasta töltkeppni í hestamannageiranum.  Ákvað að skella mér, bara að gamni, þó svo að ég sé búin að hafa lítinn tíma til geta þjálfað í vetur. Fékk lánaðann hest í vikunni sem ég hef náð að fara á bak þrisvar þannig að það verður fróðlegt að sjá hvernig þetta fer með svona litlum undirbúningi. En eins þeir segja það er ekki alltaf málið að vinna, heldur að vera með. (Þó svo að það fari nú kannski fyrir ofan garð og neðan í öllu keppnisskapinu ;)

Þarf að hætta..

Þangað til næst..

-UB


..Lykt af vorinu í London..

Skórnir komnir í hús, ég að krulla á mér hárið í fimmhundraðasta skipti á árinu og þægileg tónlist komin á fóninn.
Er mjög afslöppuð og bara ágætlega stemmd fyrir kvöldinu. Hef ákveðið að gera mér ekki neinar vonir um að einhver skemmtilegur eigi afmæli því maður veit nú aldrei. Kannski er þetta einhver gamall lord sem er að halda upp á sjötugs afmælið sitt. Þá verð ég nú reyndar ponsu svekkt, því það er annar staður sem mig langar einstaklega mikið að vera á í kvöld.
Það er í skautahöllinni í Rvk. eins furðulega og það hljómar ;) Þar fer fram töltkeppni í hestaíþróttum þar sem er ávallt mikil stemmning.

Hitti Ragnheiði Guðfinnu í morgun þar sem við röltum aðeins um Hyde Park og svo fór ég niðrí Covent Garden í skóleiðangur.
Veðrið hér í London er búið að vera æðislegt í dag. Sól og um 15 stiga hiti, sem er ekki slæmt miðað við það sem maður á að venjast. Rölti um Covent Garden með Damien Rice í eyrunum í um tvo tíma. Ekkert smá kósý, en enn og aftur þá hefði nú verið skemmtilegra að hafa einhvern með sér. Er harðákveðin í því að næst þegar ég fer í svona stutta ferð til London dreg ég einhvern með, enda nóg pláss í herberginu mínu! ;)

Er reyndar búin að vera að hugsa rosalega mikið í dag og þá sérstaklega til einnar manneskju sem hreiðraði sterklega um sig í kollinum á mér.
Stundum erfitt að vera svona mikið einn með sjálfum sér því heima þá bregst það ekki að ég er í kringum fólk. Ég á það nefnilega til að hugsa of mikið á svona stundum en það getur hins vegar líka verið þægilegt að fá aðeins að anda í einrúmi.

Enn jæja.. Ætla að hætta þessu þvaðri.. Þarf að klára að setja upp andlit ;)

Hafið það gott þarna heima.

Þangað til næst..

-UB

Lag og texti dagsins: Delicate (Damien Rice)

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband