"One down, two to go"

Þannig var nú það að í gærkvöldi losaði ég mig við eitt stykki "dollu" eins og yfirmaður minn, sýslumaðurinn á Keflavíkurflugvelli kallaði kórónurnar mínar í fyrrasumar ;)
Sú saga var nefnilega þannig að þegar ég var ráðin til starfa hjá honum voru aðeins nokkrir dagar í ungfrú Ísland keppnina. Þegar kom að keppnisdegi tilkynnti hann mér og brosti út í annað, að það væri venjan að fólk á þessum vinnustað sigraði sínar keppnir og kæmi með dolluna í hús. Eftir keppnina var hann svo að sjálfsögðu ánægður með sína, en bætti því þó við að það hefði nú verið óþarfi að taka þetta svona bókstaflega og hirða næstum öll verðlaunin, en ég fékk óþægilega marga borða þetta kvöld.
En ef maður hlýðir ekki skipunum frá sýslumanninum sjálfum.. hverjum þá..?

Annars var gærkvöldið æðislegt kvöld. Ótrúlega gaman að fá að sitja sallaróleg út í sal og horfa á skvísurnar í ungfrú Reykjavík keppninni á sviðinu og þurfa ekki að hafa áhyggjur af neinu. Var reyndar á ferð og flugi um húsið allt kvöldið. Mikið af góðu fólki til að spjalla við og svo gat ég ekki stillt mig um að kíkja einstaka sinnum á stelpurnar baksviðs.

Get ekki sagt að ég hafi fundið fyrir söknuði vði að afkrýna sjálfa mig þessum titli enda er ég langt frá því búin að sinna mínum skildum í þessum bransa. Fannst þetta bara virkilega gaman og var að fara yfir um af spenningi fyrir stelpnanna hönd þegar hið fræga "krýningarlag" tók að spilast þarna á Broadway.
Maður fær nú alltaf smá gæsahúð.. ;)

Stelpurnar sem lentu í fyrstu þrem sætunum þær Jóna, Ásdís og Soffía voru allar stórglæsilegar, í trufluðum kjólum og æðislegar í alla staða. Áttu þetta fyllilega skilið og óska ég þeim enn og aftur innilega til hamingju. Sem og hinum stelpunum til hamingju með frábært kvöld. Hver og ein gjörsamlega blómstraði.

Ég hins vegar, er komin til Lundúna og sit hérna inn á hóteleherbergi og hef það notalegt. Held ég skelli mér fljótlega í draumaheiminn enda þarf ég að taka daginn snemma á morgun og finna fermingarskó handa litla bró sem fermist næstu helgi. Það er alveg þokkalegt "mission" þarf sem ég er með aðeins eina skó í huga og engir aðrir koma til greina á drenginn.. ;)

Í hádeginu á morgun ætla ég svo að hitta hana Röggu Guðna á NFS í stutt spjall og þykir mér líklegt að þið fáið að sjá afraksturinn af því einhvertíman í næstu viku.

Hins vegar er aðalástæðan fyrir því að ég er hér, þetta stórmerkilega og einkar dularfulla afmælisboð sem ég er að fara í annað kvöld. Er ennþá engu nær um hver á afmæli og ætli ég komist nokkuð að því fyrr en ég mæti.

Annars var verið að uppfæra Miss World síðuna þannig að ég mæli með því að þið kíkið á hana! Mun flottari þetta ár heldur en í fyrra.
Þar eru líka myndir og viðtal sem var tekið við mig í annari hvorri ferðinni til Póllands.

Læt þær myndir fylgja með hér ;)



Bloggmynd

Bloggmynd

Bloggmynd


..Lasarus..

Jæja.. Þá er ég búin að vera heima í rúma viku.. Bara lúxus! ;)

Hefur tekist að bralla ýmislegt.. Sjónvarpsgláp með vinkonunum, Oddféló fundur með Ömmu, heimsókn á Broadway æfingar hjá ungfrú Reykjavík skvísunum, stórafmælisboð, og svo aðalmálið.. mér tókst að gera mig veika.
Kaus að eiga heima í hesthúsinu og þar með utandyra í nokkra daga, fyrir og um helgina, og þar sem kuldaboli er ekki góður vinur minn náði ruddalegt kvef taki á mér og ég hefði átt að leggjast undir sæng.
En ég hafði nú bara ekki tíma til að vera veik þessa daga þannig að ég gerði allt sem ég átti ekki að gera, reið út, keppti og allar græjur sem var þó með eindæmum skemmtilegt og þess virði.
Það kom hins vegar í bakið á mér eftir helgina og ég enn að reyna að svæla veikindin út með C vítamínum, sólhatti, hvítlaukshylkjum, engifer og ég veit ekki hvað og hvað.

Það sem er næst á dagskrá er að krýna Ungfrú Reykjavík 2006. Keppnin fer fram í kvöld en ég kíkti á generalprufuna hjá stelpunum í gær, rosa flott show hjá þeim og stelpurnar hver annarri flottari. Ég eiginlega virkilega vorkenni þeim sem sitja í dómnefnd í kvöld og þurfa að velja aðeins einn sigurvegara. En þetta verður spennandi, það er morgunljóst.

Í fyrramálið þarf ég svo að pakka hið snarasta því ég flýg til London seinnipartinn. Er að fara í eitthvað stórkostlegt afmæli (eins og það var orðað í emailinu) á laugardagskvöldið, en það fynda við það er að ég hef ekki hugmynd um hver á afmæli ;)

Læt ykkur vita um leið og ég kemst að því!

Bless í bili..

-UB


..Eurovision fjaðrafok..

Snemma morguninn eftir flugum við yfir til Krítar. Hvert sem við fórum og hvar sem við komum biðu okkar ljósmyndarar og blaðamenn og sjónvarpsvélar fylgdu okkur hvert fótmál. Mundi aldrei höndla það að vera fræg og búa í Grikklandi og þurfa að takast á við þessa geðveiki og Miss Greece á alla mína samúð. En það var einmitt hún, ásamt fylgdarliði sem tók á móti okkur á flugvellinum á Krít. Frábær stelpa sem ég man vel eftir frá keppninni í Kína þó svo að hún hafi ekki beint verið í mínum nánasta vinahópi.

Frá flugvellinum var farið með okkur beina leið að skoða Knossos, sem eru rústir gamallar hallar rétt fyrir utan borgina Heraklion. Verð því miður að segja með fullri virðingu fyrir grískri sögu, sem ég þekkti tiltölulega vel fyrir, að þessar fornminjar voru öðruvísi en ég var búin að ímynda mér. Skoðuðum mörg hundruð ára skolplagnir sem og ýmislegt annað fróðlegt..

Ég hef heyrt margar sögur um brjálaða bílstjóra frá fólki sem hefur upplifað Krít og ég fékk alveg minn skammt af því. Hélt að ég væri að syngja mitt síðasta í hvert einasta skipti sem ég sat í bíl þarna en þeir keyra eins og þeir eiga lífið að leysa og 160 þykir greinilega hinn eðlilegasti hraði.

Það sem eftir lifði þessa dags snérist svo um þessa fjölmiðla sem þeir eiga þarna, sem sagt myndatökur og viðtöl. Öll helstu blöð og sjónvarpsstöðvar Aþenu höfðu elt okkur til Krítar og þar sem styttist í að Eurovison verði haldið þar í borg kom það undantekningarlaust til tals. Ég lagði inn gott orð fyrir hana Silvíu Nótt okkar og sagði að það væri klárt mál að hún myndi vinna þessa keppni enda sú flottasta í bransanum í dag.

Eftir þessa blaðamannageðveiki fórum við svo í kokteilboð með þekktum einstaklingum og áhrifafólki á ýmsum sviðum í Grikklandi. Þar kom dálítið upp sem kom mér algjörlega í opna skjöldu.
Mig langar samt helst að gráta þegar ég segi ykkur frá þessu...

Ég var sem sagt, beðin um að vera kynnir á Eurovision keppninni í Aþenu í maí.
Enn.. Varð að afþakka pent þar sem ég er bókuð annarsstaðar á nákvæmlega sama tíma :(

Ég ætlaði ekki að trúa þessu! Hversu gott tækifæri og hversu gaman yrði það að fá að vera kynnir á þessum risastóra atburði OG geta hvatt Silvíu Nótt áfram í fremstu víglínu.

Ég veit ekki hvernig þetta fer.. Hvort það er eitthvað hægt að fljúga mér fram og til baka milli Kína og Grikklands fyrir þetta eina kvöld. Efast um það.. Þannig að þetta er víst bara eitthvað sem ég þarf að kyngja og sætta mig við. Ekki hægt að vera allsstaðar..

En mér finnst það bara mikill heiður að hafa verið boðið strafið yfir höfuð.

Síðar um kvöldið var ég svo dómari í ?Miss Crete? keppninni ásamt Miss Greece, Mrs. Globe 2004 (allt er nú til) og fleira fólki. Við skemmtum okkur vel saman ég, Katarina ungfrú Grikkland og Lili fyrirverandi Miss Globe, og þetta var bara ágætis kvöld. Reyndar heldur langt fyrir minn smekk en keppnin stóð frá 11-03 þannig að ég var ekki komin upp á hótel fyrr en að ganga 4.

Skemmtiatriðin á kvöldinu voru reyndar alveg milljón og ég átti virkilega virkilega bágt með mig á tímapunkti. Það voru þarna 5 dansarar, strákar og stelpur og dansarnir sem þau voru að gera voru það fyndnast sem ég hef séð. Ég hló meira að segja óvart upphátt oftar en einu sinni og þakka bara fyrir að engin af dansskvísunum héðan að heiman voru með mér. Hefði verið of erfitt!!Glottandi


Dagurinn eftir fór í ferðalag frá toppi til táar og mér er farið að líða eins og lounge-in á flugvöllunum séu mitt annað heimili. Þekki þau út og inn og þá sérstaklega á Heathrow þar sem ég er með passa inn í þau öll.

Nú er ég komin heim í Heiðardalinn, allavega í nokkra daga og er stefnan að eyða sem mestum tíma í hesthúsinu og fyrir austan. Þarf algjörlega að hlaða batteríin..

Þar til næst.. Farið vel með ykkur :)



Bloggmynd


..Blaðamenn og ljósmyndarar á útopnu..

Grunaði ekki gvend. Næsta ferð var rétt handan við hornið. Var heima í tæpa viku og flaug svo til London fimmtudaginn 16 mars. Kvöldið áður gætti ég þess vel að koma við hjá Möller familíunni í Breiðholtinu og fá lánaðan annan Harry svo að ég hefði nú eitthvað að gera í háloftunum.
Ferðinni var heitið til Grikklands, nánar tiltekið Aþenu og ég gat eiginlega ekki annað en verið spennt. Aldrei komið þangað áður og þétt en skemmtileg dagskrá framundan. Flugið frá London var um 3 tímar og var ég mjög upptekin alla leiðina við að horfa út um gluggann. Hef nefnilega ekki oft farið í flug þar sem ég sé fast land nær allan tímann en ekki bara hafið eða skýin eins og venjulega. Þarna hafði ég meira að segja útsýni yfir alpana í næstum hálftíma. Ég var alveg með landakortið fyrir framan mig allan tímann og tók sjálfa mig í góðan landafræðitíma, þar sem hún hefur aldrei verið mín sterkasta hlið. 

Þegar við komum til Aþenu var enginn tími til að fara upp á hótel fyrst heldur var brunað með mig beint í stærstu sýningarhöll borgarinnar þar sem ég átti að verða heiðursgestur á tískusýningu hjá frægum grískum hönnuðum. Mér var hent í hár og förðun í einum grænum þar sem sett var á mig tonn af gervihári sem var ekkert smá þungt að bera.
Þarna voru ábyggilega 50 aðrar fyrirsætur, allar 2 metrar á hæð og tá tá grannar og stemmningin þarna baksviðs var nákvæmlega eins og maður hefur séð í sjónvarpinu. Þvílíkt og annað eins stress og læti. Fólk á hlaupum, hrópandi og kallandi, naktar fyrirsætur á hverju strái og ljósmyndarar ALLSTAÐAR. Ég fékk reyndar sér herbergi útaf fyrir mig og ég fékk í rauninni algjöra vip framkomu, sem var frekar gaman.
Ég fékk engan tíma til að máta eða skoða fötin og það kom líka á daginn að skórnir voru 3 númerum of stórir en það er víst bara eins og það gerist og gengur í þessum bransa og ekkert hægt að væla yfir því. Bara reyna að ganga eins eðlilega og þú getur.

Ég segi það nú samt og skrifa, að ég er ekkert módel og hef aldrei verið. Allavega ekki svona göngumódel, og þetta er svo sannarlega meira en að segja það. Ég var reyndar sem betur fer þarna, sem Miss World en ekki fyrirsæta, sem þýddi að ég mátti fara fram á pallinn og gera mitt, brosa á allar hliða og njóta augnabliksins. Og að sjálfsögðu var ég sú eina sem gerði það, því hinar voru allar þaulvanar fyrirsætur með sitt sérstaka göngulag og ?attitude?. Göngupallurinn var reyndar fáránlega langur, heilir 53 metar en ég get ekki neitað því að þetta var frekar gaman. Smá egótripp að fá að ganga þarna ein og pósa fyrir framan hundruðir ljósmyndara.

Segi nú reyndar ?no comment? á hönnunina sem ég var að sýna, en ég hef oft séð það meira elegant. En ég leit meira á þetta sem búning heldur en eitthvað annað og þetta er eitthvað sem ég mundi ganga í sjálf.
Var reyndar set í eitt frekar fyndið dress. Minnti óneitanlega á svanakjólinn hennar Bjarkar. Ekki það samt að það hafi verið eitthvað mikið líkt, heldur var þetta hvítt dress með stórfurðulegum detailum.. En hin dressin voru kápa með loðkraga og mjög efnislítill kjóll í gamaldags grískum stíl.
Eftir sýninguna og þegar það var búið að drekkja mér aðeins í ljósmyndurum fengum við loksins að fara upp á hótel. En ég hafði í rauninni stigið beint út úr flugvélinni og á sýningarpallinn..

Ég fékk forsetasvítuna á hótelinu eins og reyndar oft áður en þarna var hún fáránlega stór. Var m.a með 12 manna fundarborð í hluta herbergisins / íbúðarinnar og rúmið sem ég svaf í þessa einu nótt var guðdómlegt. Stærsta, mýksta og þægilegasta rúm í heimi :)

Kvöldið var nú samt ekki á enda þarna og eftir að við skiptum um föt fórum við í kokteilboð með hönnuðunum í geggjaðri þakíbúð í miðborginni. Þar voru að sjálfsögðu ljósmyndarar og blaðamenn út um allt og ég verð að segja það að ég hef aldrei kynnst annarri eins áfergju eins og hjá pressunni í Grikklandi. Þeir tóku myndir af nákvæmlega öllu sem ég gerði. T.d í tískusýningunni þá var verið að laga mig rétt áður en mér var ýtt inn á svið og verið að reyna að redda skóvandamálinu með innleggjum. Tveir ljósmyndarar þarna tóku svona 300 myndir bara því, af fótum á mér. Hvað er málið!? Var orðin VEL þreytt á þessu á endanum og farin að taka fyrir linsurnar og biðja þá að gjöra svo vel.. OG láta mig í friði.. Þetta var algjör paparazzi fílingurBrosandi

Við höfðum því miður engan tíma til að skoða neitt í Aþenu, sem mér fannst mikil synd. Ótrúlega mikið af flottum minjum þarna sem mig langaði að skoða en það var einfaldlega enginn tími. En ég ætla þangað aftur. Annar hönnuðurinn er búinn að bjóða mér og mínum að koma og gista frítt á hótelinu hans hvenær sem ég vil og fara með okkur í siglingu á snekkjunni hans um grísku eyjarnar. Held að það verði erfitt að neita því! Þannig að.. Stelpur.. Setjið ykkur í startholurnar! ;)


Bloggmynd

Bloggmynd

Bloggmynd

Bloggmynd


..Bandaríski fáninn, Iowa og Walmart..

Ferðinni var heitið til Des Moines, Iowa með millilendingu í Chicago, einum fjölfarnasta og uppteknasta flugvelli heims. Við komum seinnipart dags á amerískum tíma sem þýddi mið nótt fyrir okkur þar sem við vorum gjörsamlega búin að snúa sólarhringnum við.
13 tíma munur!!

Þetta var í rauninni í fyrsta skipti sem ég kem til Bandaríkjanna, allavega svona almennilega. Fór til Flórída þegar ég var krakki með mams og pabz en man voða lítið eftir því . Það var því alveg smá upplifun fyrir mig bara að koma inn í landið.
Maður hafði heyrt margar sögur og auðvitað horft á sjónvarpið öll þessi ár svo maður vissi svona nokkurn vegin við hverju var að búast.
Í fyrsta lagi bjóst ég reyndar við meiri öryggisgæslu á flugvellinum þó svo að hún hafi verið alveg nóg. Ég meira segja gerði smá skandal. Var búin að ganga fram hjá skrilljón skiltum þar sem stóð hvað væri bannað að taka með inn í landið og eitt af þeim hlutum voru ferskir ávextir. Ég var greinilega alveg úti að aka þar sem mín var búin að steingleyma að hún var með epli í handtöskunni. Þeir náðu mér í gegnumlýsingunni og ég fékk vægt sjokk, skíthrædd um að vera hent í gæsluvarðhald miðað við sögurnar sem maður var búinn að heyra. En ég slapp, greinilega.. hehe.. :)

Annað sem ég tók strax eftir, fyrir utan stærðina á öllum hlutum sem er þekkt dæmi, var það að það eru skilti fyrir nákvæmlega ALLT í Bandaríkjunum. Meira segja pílur og skilti fyrir það hvoru megin þú átt að ganga inn og út um einfaldar dyr, en þetta fannst mér svoldið fyndið. Allt sett upp fyrir þig svo þú þurfir að hugsa sem minnst!

Þegar við komum til Des Moines fórum við beint í kokteilparty með öllu fólinu sem við vorum að fara að vinna með næstu daga. En við vorum komin þarna til að taka þátt í svokölluðu Telethoni, eins og kannski margir vita nú þegar. Það gekk út á 24 tíma LIVE sjónvarpsútsendingu þar sem fór fram peningasöfnun fyrir barnaspítala og aðrar stofnanir fyrir börn. Það eru góðgerðarsamtökin Variety sem standa fyrir þessu árlega og fljúga inn þekktum einstaklingum, leikurum, skemmtikröftum, íþróttastjörnum og miss world. Þetta kokteilboð gat held ég ekki gerst mikið amerískara. Enda ekki við öðru að búast. Stödd í sveit í Bandaríkjunum þar sem risastórum amerískum fánum var flaggað út um allt og þjóðernishyggjan og stoltið að fara með fólk. Kellingarnar þarna voru svo klæddar eins og gallafata barbie og meira að segja nokkrar í glitrandi toppum með bandarísku fánalitunum í og sjálfsögðu stífmálaðar, búnar að fara í nokkrar andlitsstrekkingar og með hárið túberað þannig að þær litu út eins og Fran í þættinum "the Nanny" ;)

Næstu dagar fóru í að undirbúa sjónvarpsútsendinguna og heimsækja staðina sem við vorum að fara að hjálpa sem mér fannst virkilega gefandi því oft veistu ekkert fyrir víst hvert peningarnir fara sem þú gefur til góðgerðarmála. Þarna fékk maður að sjá sönnun fyrir því að telethonið hefur bjargað lífum mörg hundruð barna síðustu árin.

Þegar kom svo að útsendingunni sjálfrim vöktum við í 24 tíma og unnum eins og brjálæðingar til að reyna að bæta metið í söfnuninni frá því í fyrra. Sem og við gerðum og vorum ótrúlega stolt af.
3.6 milljónir bandaríkja dala. Ekki slæmt!!

Ég kynntist ofsalega mikið af góðu og skemmtilegu fólki en það var að sjálfsögðu aðallega unga fólkið sem ég hékk með þessa daga. Ég var einn af aðalkynnunum í útsendingunni og var alveg að vinna í ameríska hreimnum sem ég lærði þegar ég var að vinna uppá velli í sumar. Brandon Routh betur þekktur sem Súperman kynnti eiginlega alltaf með mér eða Jason Cook leikari í sápuóperu þarna úti. Báðir ótrúlega jarðbundnir og fínir strákar og Brandon engan veginn að gera sér grein fyrir því hvað bíður hans þegar Superman verður frumsýnd í sumar. Eftir útsendinguna fórum við svo öll saman út að borða og héldum heljarinnar party til fagna velgengninni. Þrátt fyrir þreytu og svefnleysi sátum við Jason, Brandon og Courtney kærastan hans ásamt krökkum úr Bluegrass hljómsveit sem var að spila þarna í útsendingunni, á spjalli langt fram eftir nóttu, en svo áttu allir flug til sinna heimahaga snemma daginn eftir.

Flugið okkar var hins vegar ekki fyrr en um eitt leytið og þrátt fyrir rífandi þreytu skellti ég mér í Walmart með Emmu Thompson morguninn eftir.. Allt á milli himins og jarðar fæst í þessari verslun og fannst mér nú nóg til komið þegar ég rambaði inn á dekkjaverkstæði í einu horni búðarinnar. Var reyndar alltof þreytt til að skoða eitthvað af viti þarna en ég er viss um að þú gætir eytt viku þarna inni og séð eitthvað nýtt á hverjum degi.

Þetta var skemmtilegasta vika sem ég hef upplifað hingað til sem Miss World og ég er strax búin að heyra í öllu þessu frábæra fólki sem ég kynnist þarna úti. Mig langar ótrúlega að fara aftur að ári þó ég verði ekki lengur miss world og hitta og eyða tíma með öllu fólkinu aftur en það kemur þarna ár eftir ár. Það er reyndar mjög líklegt að það verði að veruleika þar sem stjórnendur telethonsins voru meira en til í að bjóða mér aftur að ári. Og ef ekki þá á ég heimboð til þeirra til L.A, N.Y og nokkrum örðum stöðum hvenær sem ég vil sem ég á án efa eftir að þiggja.

Frá Iowa hafði verið á dagskránni að fljúga niður til Mexíkó, en því var frestað þar til í júlí og ég gat því loksins loksins leyft mér að hlakka til að komast heim sem ég gerði daginn eftir.

Ég svaf reyndar næstum samfleytt í tvo daga eftir að ég kom til Íslands enda frekar langþreytt þar sem vinnudagarnir í þessu starfi eru fáránlega langir.
Síðustu 2-3 vikur hef ég farið í 11 flug og ferðast alls 27.000 mílur.

Enn og aftur vissi ég ekkert hvað var næst á dagskrá og því var ég bara öllu búin þegar ég tékkaði á emailinu mínu á morgnanna.


Bloggmynd

Bloggmynd

Bloggmynd

Bloggmynd


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband